„Ég er árásarmaðurinn. Það er ég“

Fólk leit á Omar Mateen ýmist sem vinalegan eða ofbeldishneigðan.
Fólk leit á Omar Mateen ýmist sem vinalegan eða ofbeldishneigðan. AFP

Omar Mateen, sem drap 49 í skotárás á skemmtistað í Orlando um helgina, hringdi í vin sinn til þess að kveðja hann meðan á árásinni stóð. Bandaríska alríkislögreglan hefur yfirheyrt vininn en Mateen hringdi einnig á neyðarlínuna og í framleiðanda hjá fréttastöð í borginni. Sagðist hann vera árásarmaðurinn og að hann væri að fylgja fyrirmælum Ríkis íslams. Rúmlega 50 særðust í árásinni.

Matthew Gentili, framleiðandi hjá sjónvarpsstöðinni News 13, fékk símtal um klukkan 2.45 um nóttina frá manni sem sagðist vera árásarmaðurinn. „Ertu búinn að heyra af skotárásinni?“ spurði maðurinn hinum megin á línunni. „Ég er árásarmaðurinn. Það er ég. Ég er árásarmaðurinn.“

Að sögn Gentili virtist maðurinn tala arabísku á einum tímapunkti í samtalinu og sagði honum síðar að hann hefði framið árásina fyrir Ríki íslams. Gentili spurði manninn hvort hann vildi segja eitthvað meira og svaraði hann því neitandi og skellti á.

Alríkislögreglan vinnur nú að því að safna saman gögnum úr síma árásarmannsins en hann skemmdist töluvert vegna vatns og blóðs á vettvangi en lögregla tók í sundur vatnslögn þegar veggur var brotinn niður til þess að bjarga fólkinu.

Fyrrverandi samstarfsfélagi Mateens sagði hann hafa stöðugt verið að tala illa um samkynhneigða og að þá hefði hann einnig ítrekað látið falla karlrembuummæli og rasísk. Þá hefur lögregla yfirheyrt fólk sem segist hafa talað við árásarmanninn á stefnumóta-appi fyrir samkynhneigða. Þó hefur enginn gefið sig fram og sagst hafa stundað kynlíf með Mateen.

Faðir Mateens neitaði því í dag að sonur hans hefði tengst Ríki íslams. „Hann fæddist hér, hann hefur farið í skóla, hann fór í háskóla. Hann vann hérna. Hann hefur aldrei farið til Afganistans, hann hafði engan áhuga á því.“

Faðirinn kallaði Ríki íslams jafnframt óvin „manngæsku“ og sagði að hann hefði látið yfirvöld vita hefði hann vitað af áætlunum sonar síns. Í gær sagðist hann jafnframt ekki trúa því að sonur sinn hefði verið samkynhneigður.

Sitora Yusufiy, sem var áður gift Mateen, sagðist ekki viss um kynhneigð hans. „Það kæmi mér ekki á óvart ef hann væri samkynhneigður. Það kemur mér heldur ekki á óvart að hann myndi lifa tveimur ólíkum lífum og ætti í baráttu við sjálfan sig,“ sagði Yusufiy. „Ég vona að fólk skilji að þetta er geðveik manneskja sem gerði hræðilegan hlut.“

Fólk sem segist hafa hitt Mateen lýsir ólíkri reynslu af manninum. Í augum sumra var hann ofstækismaður á móti samkynhneigðum en í augum annarra var hann vingjarnlegur fastagestur á skemmtistað samkynhneigðra. Chris Callen, sem kom reglulega fram á Pulse, þar sem árásin var framin, sagði að Mateen hefði komið á staðinn tvisvar í mánuði að meðaltali síðustu þrjú árin.

Callen sagði hann mjög vingjarnlegan og ekki virðast sem einhver sem gæti framið svona hræðilegan verknað.

Þá sagði fyrrnefndur fyrrverandi samstarfsfélagi Mateens hann mann sem talaði stöðugt niður til annarra. „Hann var reið manneskja, ofbeldishneigður og oftækismaður,“ sagði Dan Gilroy en þeir unnu saman sem öryggisverðir.

Umfjöllun CNN.

Mateen lét til skara skríða á skemmtistaðnum Pulse. Í ljós …
Mateen lét til skara skríða á skemmtistaðnum Pulse. Í ljós kom síðar að hann hafi verið fastagestur á staðnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert