Eiginkona Mateen kann að sæta ákæru

Patience Carter og Angel Santiago voru meðal þeirra sem særðust …
Patience Carter og Angel Santiago voru meðal þeirra sem særðust í árásinni á Pulse. AFP

Eiginkona Omar Mateen, sem drap 49 manns í skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando á aðfaranótt sunnudags, kann að sæta ákæru.

Saksóknaraembættið í Orlando hefur kallað saman ákærudómstól til að rannsaka Noor Salma, eiginkonu Mateen, að því er greint er frá fréttavefjum Reuters og Fox News.

Á Salman að hafa sagt lögreglu að hún hafi reynt að tala eigimann sinn ofan af því að gera árás á Pulse.

Skotárásin á Pulse er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna, en alls varð Mateen 49 manns að bana og særði 53 til viðbótar. 

Fox fréttastofan hefur eftir saksóknara að verið sé að skoða hvort ákæra eigi Salman fyrir aðild að morðinu á 49 manns og fyrir aðild að tilraun til morðs á 53 til viðbótar. Einnig kunni hún að vera ákærð fyrir að tilkynna yfirvöldum ekki um yfirvofandi árás.

Hringdi í konu sína meðan á árásinni stóð

Talið er mögulegt að Mateen hafi hringt í konu sína á meðan á árásinni stóð, samkvæmt heimildum Fox.

Salman hefur sætt yfirheyrslum frá því á sunnudagsmorgun en hún hefur enn sem komið er ekki verið handtekin. Fjölmiðlar vestra sögðu frá því í gær, að Salman hefði farið með manni sínum að kaupa skotfæri, og að hún hefði einnig ekið honum á Pulse-næturklúbbinn einhverjum dögum áður en hann lét til skarar skríða, þar sem hann vildi kanna aðstæður. 

Öldungadeildarþingmaðurinn Angus King sagði í viðtali við CNN að „svo virðist sem hún hafi haft einhverja vitneskju um hvað var að gerast. En King á sæti í rannsóknarnefnd þingsins sem hefur verið upplýst um gang mála.

„Hún virðist sýna fullan samstarfsvilja og veitir okkur nokkuð af mikilvægum upplýsingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert