Elskaði ekki Pistorius

Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp.
Oscar Pistorius og Reeva Steenkamp. AFP

Reeva Steenkamp, kærasta spretthlauparans Oscars Pistorusar, elskaði hann ekki. Þetta sagði Kim Martin, frænka Steenkamp, fyrir dómi í morgun.

Réttarhöld standa þessa dagana yfir í máli Pistorusar en hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að valda dauða kærustu sinnar. Því var snúið við og í desember í fyrra ákvað dómari að sakfella hann fyrir morð og er nú komið að því að ákveða refsingu hans.

Hann gæti átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm fyrir morðið á Steenkamp.

Martin gaf vitnisburð sinn fyrir dómi í dag. Hún sagðist ekki trúa því að hið sanna í málinu hafi komið fram.

„Ég heyrði hann aldrei biðjast afsökunar. Ég held ekki að sanna útgáfan hafi komið fram. Við vildum bara sannleikann,“ sagði hún.

Barry Roux, lögmaður Pistorusar, spurði Martin um ástarsamband þeirra Pistorusar og Steenkamp.

Martin sagði að Steenkamp hafi verið spennt og hrifin af Pistorius. „En ég gat ekki séð ástina,“ bætti hún við.

Pistorius skaut Steenkamp í gegnum klósettdyrnar á heimili sínu á Valentínusardaginn fyrir þremur árum. Hann hefur sagst hafa upplifað sig varnarlausan og talið að innbrotsþjófur væri í húsinu. Saksóknari málsins hefur hins vegar haldið því fram að Pistorius hafi skotið Steenkamp af ásettu ráði eftir rifrildi þeirra á milli.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka