Smáfloti fiskibáta sigldi upp ána Thames í Lundúnum í dag til að hvetja Breta til að yfirgefa Evrópusambandið. Blásið var í þokulúðra í mótmælaskyni við fiskveiðikvóta ESB og voru mótmælaskilti sem á stóð „Farið, bjargið landinu okkar“ og „Brexit er eina leiðin“ sýnileg á bátunum.
AFP-fréttastofan segir minni báta stuðningsmanna ESB, sem skreyttir voru skiltum sem á stóð „Inni“, einnig hafa verið á ánni, auk þess sem stuðningsmenn ESB hengdu borða með sömu orðum á brýr Thames-ár. Tónlistarmaðurinn og aðgerðasinninn Bob Geldof, var um borð í einum litlu bátanna og spilaði hann í gegnum hátalarakerfi lag Dobies Grays „In With The In Crowd“.
Mótmælin voru skipulögð af herferðinni „Fishing For Leave“ og var Nigel Farage, formaður UKIP, meðal þátttakenda, en til stendur að sigla bátunum framhjá þinghúsinu síðar í dag.
„Veran í ESB er að eyðileggja iðnað í landinu,“ sagði Farage er hann steig um borð í bát vandlega skreyttan breska fánanum.
Greenpeace-umhverfisverndarsamtökin hafa sakað Farage um hentistefnu og sagt vanda sjávarútvegsins til kominn vegna kvótakerfis breskra stjórnvalda ekki ESB.