Spretthlauparinn Oscar Pistorius tók af sér gervifæturna við réttahöldin í dag og haltraði fyrir framan dómarann á meðan verjandi hans færði rök fyrir því að hann væri varnarlaus maður sem þyrfti að sýna miskunn. Réttarhöld standa nú yfir í máli Pistorusar, sem var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að valda dauða kærustu sinnar, Reevu Steenkamp. Í desember í fyrra ákvað dómari hins vegar að sakfella hann fyrir morð og nú er komið að því að ákveða refsingu hans.
Pistorius grét er hann haltraði fyrir framan dómarann Thokozile Masipa, en hann á yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm fyrir morðið á Steenkamp.
Fréttamaður Sky News fréttastofunnar, Alex Crawford, fylgist með réttarhöldunum og segir hann Pistorius umbreytast við að fjarlægja gervifæturna. „Hann fer frá því að vera fullvaxinn, hraustur maður yfir í að vera mjög varnarlaus – einhver sem er hægt að ýta um koll,“ segir Crawford.
„Það er þetta sem hann [lögfræðingurinn Barry Roux] vildi sýna. Ég held að þetta eigi eftir að hafa mikil áhrif á ákvörðun dómarans.“
Roux hafi lagt áherslu á að Pistorius væri ekki hrifinn af að sýna sig svona, og það hafi verið augljóst af viðmóti hans.
Pistorius var ekki með gervifæturna þegar hann skaut Steenkamp í gegnum klósettdyrnar á heimilil sínu á Valentínusardaginn fyrir þremur árum. Hann sagði þá í vitnastúkunni að hann hefði upplifað sig varnarlausan og að hann hefði talið að innbrotsþjófur væri í húsinu. Saksóknari hefur hins vegar haldið því fram að Pistorius hafi skotið Steenkamp af ásettu ráði eftir rifrildi þeirra á milli.
Roux sagði réttinum í dag að þetta væru „raunverulegar og sannfærandi kringumstæður“ sem að heimiluðu dómaranum að rök fyrir því víkja frá lágmarksrefsingu fyrir morð, sem er 15 ár í Suður-Afríku.