Tók af sér gervifæturna og haltraði fyrir framan dómara

Spretthlauparinn Oscar Pistorius tók af sér gervifæturna við réttahöldin í dag og haltraði fyrir framan dómarann á meðan verjandi hans færði rök fyrir því að hann væri varnarlaus maður sem þyrfti að sýna miskunn. Rétt­ar­höld standa nú yfir í máli Pistorusar, sem var dæmd­ur í fimm ára fang­elsi fyr­ir mann­dráp af gá­leysi fyr­ir að valda dauða kær­ustu sinn­ar, Reevu Steenkamp. Í des­em­ber í fyrra ákvað dóm­ari hins veg­ar að sak­fella hann fyr­ir morð og nú er komið að því að ákveða refs­ingu hans.  

Pistorius grét er hann haltraði fyrir framan dómarann Thokozile Masipa, en hann á yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm fyrir morðið á Steenkamp.

Fréttamaður Sky News fréttastofunnar, Alex Crawford, fylgist með réttarhöldunum og segir hann Pistorius umbreytast við að fjarlægja gervifæturna. „Hann fer frá því að vera fullvaxinn, hraustur maður yfir í að vera mjög varnarlaus – einhver sem er hægt að ýta um koll,“ segir Crawford.

Líklegt til að hafa áhrif á ákvörðun dómara

„Það er þetta sem hann [lögfræðingurinn Barry Roux] vildi sýna. Ég held að þetta eigi eftir að hafa mikil áhrif á ákvörðun dómarans.“

Roux hafi lagt áherslu á að Pistorius væri ekki hrifinn af að sýna sig svona, og það hafi verið augljóst af viðmóti hans.

Pistorius var ekki með gervifæturna þegar hann skaut Steenkamp í gegnum klósettdyrnar á heimilil sínu á Valentínusardaginn fyrir þremur árum. Hann sagði þá í vitnastúkunni að hann hefði upplifað sig varnarlausan og að hann hefði talið að innbrotsþjófur væri í húsinu. Saksóknari hefur hins vegar haldið því fram að Pistorius hafi skotið Steenkamp af ásettu ráði eftir rifrildi þeirra á milli.

Roux sagði réttinum í dag að þetta væru „raunverulegar og sannfærandi kringumstæður“ sem að heimiluðu dómaranum að rök fyrir því víkja frá lágmarksrefsingu fyrir morð, sem er 15 ár í Suður-Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert