Donald Trump, forsetaefni repúblikana, segist vilja koma í veg fyrir að þeir sem eru á lista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn geti keypt skotvopn.
Hann skrifaði á Twitter-síðu sína í dag að hann myndi funda með Landssambandi byssueigenda, NRA, í Bandaríkjunum til þess að ræða málið.
Fjörutíu og níu manns voru skotnir til bana á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando í Flórída á sunnudaginn. Árásarmaðurinn, Omar Mateen, hafði tvívegis verið til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni og var á lista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn.
Eiginkona hans hefur einnig verið yfirheyrð í tengslum við málið. Skotárásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna.
Trump hefur hingað til verið svarinn stuðningsmaður byssueignar og lýsti NRA yfir stuðningi við forsetaframboð hans í síðustu viku.
Á heimasíðu FBI eru tveir listar yfir hugsanlega hryðjuverkamanna. Þeir sem eru á öðrum þeirra mega ekki fljúga til og frá Bandaríkjunum en Mateen var hins vegar á hinum listanum, sem er fjölmennari.
Trump lét svipuð ummæli falla í sjónvarpsviðtali í nóvember síðastliðnum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
Stuðningsmenn hertrar byssulöggjafar, eins og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, telja að skotárásin mannskæða í Orlando styrki málstað þeirra. „Við verðum að sjá til þess að það sé ekki auðvelt fyrir einhvern sem vill skaða fólk í landinu að komast yfir skotvopn,“ segir Obama.
Hann hefur í valdatíð sinni reynt að takmarka byssueign og breyta byssulöggjöfinni en mætt mikilli andstöðu repúblikana á Bandaríkjaþingi.