14 stunda málþóf til að breyta byssulöggjöfinni

Chris Murphy ræðir við fjölmiðla að loknu málþófinu.
Chris Murphy ræðir við fjölmiðla að loknu málþófinu. AFP

Chris Murphy, þingmaður bandaríska Demókrataflokksins, hélt í gær og nótt uppi fjórtán klukkustunda löngu málþófi á bandaríska þinginu, í því skyni að reyna að þvinga fram atkvæðagreiðslu um herta byssulöggjöf í kjölfar skotárásarinnar á skemmtistaðinn Pulse í Orlando aðfaranótt sunnudags.

Murphy talaði lengst af sjálfur en fékk þó aðstoð frá nokkrum flokksfélaga sinna í Demókrataflokkinum. Með því að beita málþófi geta þingmenn komið í veg fyrir hægt sé að hefja umræðu um önnur mál. Fréttavefur BBC segir Murphy hafa sent frá sér Twitter-skilaboð um að búið væri að tryggja atkvæðagreiðsluna en engin staðfesting hefur borist frá þinginu um að svo sé.

Skotárásin á Pulse er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna en 49 manns féllu þar fyrir hendi Omar Mateens og 53 til viðbótar slösuðust. Tugir þeirra eru enn á sjúkrahúsi, margir alvarlega særðir.

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Joe Biden varaforseti heimsækja báðir Orlando í dag.

Birti reiðilestur á Facebook

Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að Mateen birti fjölda pósta á Facebook áður en hann réðist inn á Pulse og eins á meðan að hann var þar inni, þar sem hann lét gamminn geysa um sorahætti vestursins.

Þá á Mateen einnig að hafa sagt á Facebook að „Bandaríkin og Rússlands verða að hætta að gera sprengjuárásir á Ríki íslams“. Hefur þingnefnd um þjóðaröryggi farið þess á leit við Facebook að veittar verði upplýsingar um virkni Mateens á samfélagsmiðlinum.

Murphy hóf málþóf sitt um hálftólf leytið á miðvikudag og hét því þá að yfirgefa ekki ræðustólinn fyrr en hann fengi „einhver merki um … að við getum náð saman“.

Óforsvaranlegt að gera ekkert

Murphy er frá Connecticut, þar sem 26 mann féllu í skotárás á Sandy Hook-grunnskólann árið 2012. Sagðist hann vilja þvinga repúblikana og demókrata til að samþykkja löggjöf sem heimilaði að hægt væri að synja þeim sem grunaðir eru um hryðjuverk um að kaupa vopn, sem að krafist sé alhliða bakgrunnsskoðunar við byssukaup.

„Fyrir þau okkar sem erum fulltrúar Connecticut er skortur þingheims á að gera eitthvað, hvað sem er til að draga úr þessum stöðugu drápum ekki bara sársaukafullur, heldur óforsvaranlegur,“ sagði Murphy.

Í Twitter-skilaboðum sem hann sendi frá sér snemma á fimmtudagsmorgun sagði hann síðan: „Ég er stoltur að tilkynna eftir rúma fjórtán tíma í ræðustól, að það verður kosið um að brúa bilið milli alhliða bakgrunnsskoðunar og hryðjuverkavinkilsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert