Þingkona Verkamannaflokks Bretlands sem var myrt í kjördæmi sínu fyrr í dag lætur eftir sig mann og tvö ung börn. Ekki er vitað hvers vegna hún var myrt en í breskum miðlum er haft eftir vitnum að árásarmaðurinn hafi hrópað að henni „Bretland á undan“ (e. Britain first) þegar hann réðst til atlögu en það er nafn öfgafulls stjórnmálaflokks hvers helstu stefnumál snúa gegn fjölmenningu, íslam og innflytjendum.
Jo Cox var 41 árs þegar hún lést en hún komst fyrst á þing eftir þingkosningarnar í Bretlandi í fyrra. Hún var ötull talsmaður flóttamanna og mannréttinda og flutti t.a.m. kröftuga ræðu á breska þinginu um ástandið í Aleppo í Sýrlandi.
Cox var ein 36 þingmanna Verkamannaflokksins sem tilnefndu Jeremy Corbyn til þess að gegna formannsembætti Verkamannaflokksins þegar tilnefningin fór fram og var hún, rétt eins og mikill meirihluti þingmanna Verkamannaflokksins, stuðningsmaður áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.
Margt er enn á huldu um tildrög árásarinnar en morðið var framið í Birstall, nokkuð fjölmennum bæ í kjördæmi hennar. Nánar tiltekið fyrir utan bókasafn í bænum þar sem Cox hélt reglulega fundi með kjósendum.
Í upplýsingum frá lögreglunni á svæðinu barst útkall klukkan 12:53 í dag að staðartíma þar sem tilkynnt var um að kona á fimmtugsaldri hefði hlotið alvarlega áverka og væri í lífshættu. Lögregla fjarlægði vopn af morðvettvangi, þ.á m. skotvopn, en því hefur verið haldið fram að hún hafi orðið fyrir skot- og stunguárás.
Fimmtíu og tveggja ára gamall maður var handtekinn af óeinkennisklæddum lögregluþjónum skammt frá vettvangi morðsins. Breskir miðlar hafa eftir íbúum í bænum að maðurinn heiti Tommy Mair og hefur honum verið lýst sem einfara.
Læknir sem hlúði að Cox úrskurðaði hana látna tæpri klukkustund eftir að lögreglunni barst útkallið, klukkan 13:48 að staðartíma. Karlmaður á áttræðisaldri hlaut einnig áverka við árásina en hann er ekki talinn vera í lífshættu.
Eftirlifandi eiginmaður hennar er Brendan Cox sem var aðstoðarmaður Gordon Brown í ráðherratíð hans.