Jo Cox, þingkona breska Verkamannaflokksins, hefur orðið fyrir skot- og stunguárás í Vestur-Jórvíkurskíri. Þá er ónefndur karlmaður særður eftir árásina.
Cox var flutt með þyrlu á sjúkrahús í Leeds, þar sem hún liggur nú þungt haldin. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC, er vopnað lið lögreglu fyrir utan sjúkrahúsið. Í yfirlýsingu sem lögreglan í Vestur-Jórvíkurskíri sendi frá sér, segir að 52 ára karlmaður hafi verið handtekinn vegna málsins.
Greint er frá því í breskum miðlum og á samfélagsmiðlum að árásarmaðurinn hafi hrópað „Britain First“ á meðan hann stakk þingkonuna, eftir að hafa skotið hana þremur skotum, en Britain First er breskur stjórnmálaflokkur sem berst gegn innflytjendum og fjölmenningu.
Uppfært kl. 13:57:
BBC greinir frá því að þingkonan hafi verið á fundi á bókasafni í Birstall, þegar árásin átti sér stað. Vitni að árásinni segir tvo menn hafa deilt fyrir utan bókasafnið og að Cox hafi skorist í leikinn, með fyrrnefndum afleiðingum.
Hún hefur nú verið flutt á sjúkrahús í Leeds, þar sem hún liggur þungt haldin.
Uppfært kl. 14:15:
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur tjáð sig um árásina á Twitter-reikningi sínum. Þar segist hann í áfalli vegna fréttanna og að hugur Verkamannaflokksins sé hjá Cox og fjölskyldu hennar.
Uppfært kl. 14:31: Upphaflega var greint frá því að breskir miðlar greindu frá árásinni samkvæmt óstaðfestum heimildum. Talskona þingkonunnar hefur nú staðfest fréttirnar.
Uppfært kl. 14:53: Lögreglan í Vestur-Jórvíkurskíri segir í yfirlýsingu að 52 ára karlmaður hafi verið handtekinn vegna atviksins. Greint er frá því í breskum miðlum og á samfélagsmiðlum að árásarmaðurinn hafi hrópað „Britain First“ á meðan hann stakk þingkonuna, eftir að hafa skotið hana þremur skotum, en Britain First er breskur stjórnmálaflokkur sem berst gegn innflytjendum og fjölmenningu.