Í áfalli yfir glórulausri árás

Jo Cox var úrskurðuð látin um það bil klukkutíma eftir …
Jo Cox var úrskurðuð látin um það bil klukkutíma eftir að lögreglu barst útkall vegna árásarinnar. AFP

„Sameinumst gegn hatrinu sem leiddi til dauða hennar,“ eru skilaboðin sem Brendan Cox, eiginmaður breska þingmannsins Jo Cox sem var myrt fyrir utan bókasafn í bænum Birstall í Vestur-Jórvíkurskíri í dag, sendi frá sér í yfirlýsingu í kvöld.

Jo Cox var skotin til bana eftir að hafa fundað með kjósendum á bókasafni í bænum sem er í kjördæminu hennar. Í yfirlýsingunni sem Brendan sendi frá sér í kvöld lýsir hann Cox sem metnaðarfullri konu og segir ljóst að „ekki eins gleðilegir“ tímar séu fram undan hjá fjölskyldunni.

Margir hafa lýst yfir virðingarvott við Jo á samfélagsmiðlum og víðar. Lögreglustjóri Vestur-Jórvíkurskírs, Mark Burns-Williamson, segist hafa unnið náið með henni eftir að hún hafi verið kjörin á þing. „Ég er í áfalli. Að svona ung kona hafi orðið fyrir þessari glórulausu árás og verið myrt í kjördæminu sínu þar sem hún var að þjóna samfélaginu.“

Helga öllum dögum lífs síns í að berjast gegn hatrinu

Í yfirlýsingu Brendans segir hann daginn í dag marka upphafið að nýjum kafla. Segir hann dagana fram undan verða „erfiðari, sársaukafyllri, ekki eins gleðilegir eða eins fullir af ást“ en áður. Fimmtíu og tveggja ára karlmaður er í haldi lögreglu grunaður um verknaðinn.

AFP

Jo Cox var úrskurðuð látin um það bil klukkutíma eftir að lögreglu barst útkall vegna árásarinnar en árásin átti sér stað um hádegi að staðartíma.

„Ég, vinir Jo og fjölskylda ætlum að helga öllum dögum lífs okkar í að elska og hlúa að börnum okkar og berjast gegn hatrinu sem varð Jo að bana,“ segir í yfirlýsingu Brendans.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði Cox hafa þjónað samfélagi sínu um ævilangt skeið og að hún hafi tileinkað sér djúpstæða manngæsku. Enn fremur hafi hún staðið við gefin loforð um að bæta heiminn, standa vörð um mannréttindi og gera enn betur.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði dauða Cox vera algjöra hörmung. „Hún var staðfastur og ástríkur þingmaður,“ sagði Cameron í Twitter-færslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert