Annar flugriti farþegaþotu EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í síðasta mánuði fannst í dag, að sögn egypskra yfirvalda.
Leitarteymið fann í gær flugrita með upptöku úr flugstjórnarklefa þotunnar en flugritarnir tveir, svörtu kassarnir svonefndu, geta varpað frekara ljósi á hvers vegna þotan hrapaði.
Þotan, sem er af gerðinni Airbus A320, hrapaði til jarðar 19. maí síðastliðinn. Sextíu og sex manns voru um borð.
Þotan var á leið frá Parísarborg til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, þegar hún hvarf af ratsjá.
Rannsakendur telja of snemmt að segja til um hvað olli hrapinu. Ekki sé hægt að útiloka neitt á þessari stundu, þar með talið að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.
Umfangsmikil leit að flakinu og flugritunum hefur staðið yfir og var meðal annars notað skip með neðansjávarvélmenni norðan við strönd Egyptalands.