Eftir sex daga ganga Bretar til kosninga um hvort þeir segja skilið við Evrópusambandið eða ekki. Kosningabaráttan hefur verið hatrömm og einkennst af persónulegum árásum en stjórnmálaskýrendur eiga von á því að morðið á þingmanni Verkamannaflokks Bretlands komi til með að róa baráttuna á milli fylkinga.
Jo Cox var myrt í kjördæmi sínu í gær. Fimmtíu og tveggja ára maður er grunaður um morðið og er í haldi lögreglu en verið er að rannsaka tengsl mannsins við hægri öfgahópa.
Frétt mbl.is: Rannsaka tengsl við hægri öfgahópa
Í frétt AFP er rætt við Wyn Grant, stjórnmálafræðiprófessor við Wawick háskóla í Coventry í Bretlandi. Hann telur að morðið á Cox muni róa kosningabaráttu beggja fylkinga, þó sérstaklega þá sem aðhyllast úrsögn.
Atkvæðagreiðslan fer fram næstkomandi fimmtudag þar sem kemur í ljós hvort Bretland segi skilið við Evrópusambandið eftir 43 ára samband landsins við sambandið.
AFP tók saman nokkra atburði sem hafa skipt mestu máli í kosningabaráttunni til þessa.
Í febrúar ákvað David Cameron hvenær kosið yrði um aðild Breta að sambandinu. Hann gaf upp dagsetninguna 23. júní eftir að hafa rætt við leiðtoga Evrópusambandsins og aðildarríkja þess um umbætur eða grundvallarbreytingu á tengslum Bretlands við sambandið, einkum á flóttamannastefnu sambandsins.
Daginn eftir, 21. febrúar, tilkynnti Boris Johnson, samflokksmaður Camerons og á þeim tíma borgarstjóri Lundúna, um að hann myndi berjast fyrir því að Bretland segði sig úr Evrópusambandinu.
Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðuflokks Verkamannaflokksins í Bretlandi, rauf þögn sína og hvatti Breta til að kjósa með áframhaldandi veru í sambandinu. Degi síðar hófst formleg kosningabarátta vegna atkvæðagreiðslunnar.
Frétt mbl.is: Corbyn vill vera áfram í ESB
Sjö dögum síðar barst Evrópusinnum styrkur úr vesturátt þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði úrsögn úr ESB veikja stöðu Bretlands.
Forystumenn í alþjóðlegum stofnunum lýstu yfir stuðningi við áframhaldandi veru Breta í sambandinu. Leiðtogar sjö af stærstu iðnríkjum heims sögðu að kysu Bretar að ganga úr Evrópusambandinu muni það snúa við vexti í alþjóðlegum viðskiptum, fjárfestingum og störfum.
Frétt mbl.is: G7 telur Brethvarf ógna vexti
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tók í sama streng. Hún sagði það vera „frekar slæmt að mjög slæmu“ fyrir efnahag Bretlands kysu Bretar að yfirgefa ESB.
OECD, stjórnmálamenn Evrópusambandsins, fyrrverandi leiðtogar NATO sem og varnarmála-, utanríkis- og fjármálaráðherrar Bandaríkjanna hvöttu Breta til að yfirgefa sambandið ekki.
Í júní fóru skoðanakannanir að snúast við úrsagnarfylkingunni í vil. Í byrjun mánaðarins benti meðaltal rannsóknarmiðstöðvarinnar WhatUKThinks, sem byggði á þremur könnunum sem gerðar voru um í upphafi mánaðarins, til þess að 51 prósent þjóðarinnar styðji úrsögn en 49 prósent áframhaldandi veru.
Frétt mbl.is: Meirihluti vill úr Evrópusambandinu
14. júní hvatti The Sun, mest lesna dagblað Bretlands, þjóðina til þess að kjósa með úrsögn. Degi síðar sigldi flotasveit „Brexit“ upp ána Thames í Lundúnum. Fiskibátar sigldu upp ána og hvöttu Breta til að yfirgefa ESB.
Mótmæltu þeir fiskveiðikvóta ESB og voru mótmælaskilti sem á stóð „Farið, bjargið landinu okkar“ og „Brexit er eina leiðin“ sýnileg á bátunum.