Rannsaka tengsl við hægri öfgahópa

Leiðtogar breska þingsins minntust Cox fyrr í dag og fordæmdu …
Leiðtogar breska þingsins minntust Cox fyrr í dag og fordæmdu árásina. AFP

Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa til rannsóknar hvort morðingi breska þingmannsins Jo Cox hafi tengst hægri öfgahópum og verið veikur á geði.

Maðurinn sem grunaður er um morðið er 52 ára og heitir Thomas Mair. Hann var handtekinn skömmu eftir að Cox var skotin og stungin margsinnis fyrir utan bókasafn í breska bænum Birstall.

Jo Cox, þingmaður breska Verkamannaflokksins.
Jo Cox, þingmaður breska Verkamannaflokksins. AFP

Dee Collins, lögreglustjórinn í Vestur-Jórvíkurskíri, segir morðið hafa verið framið þegar Cox var á leið til fundar með kjósendum í kjördæmi sínu sem er í Norður-Englandi. Virðist sem árásin sé einangrað tilvik en að árásarmaðurinn hafi ætlað sér að ráðast á Cox.

Hún segir m.a. „Við erum meðvituð um umræðuna í fjölmiðlum um tengingu mannsins við geðsjúkrahús og er það til skoðunar hjá lögreglu,” sagði hún í yfirlýsingu. „Við erum einnig meðvituð um umfjöllun fjölmiðla um tengsl mannsins við hægri öfgahópa sem er einnig forgangsatriði í rannsókninni og getur hjálpað okkur að komast að ástæðu árásarinnar.”

Frá vettvangi morðsins.
Frá vettvangi morðsins. AFP

Tengist ekki óeðlilegum samskiptum sem Cox kvartaði undan fyrr á árinu

Collins sagði enn fremur í yfirlýsingunni að miðað við upplýsingar lögreglu virðist sem að um einangrað tilfelli sé að ræða og ekkert bendi til þess að morðinginn hafi átt sér vitorðsmenn. „Hins vegar munum við rannsaka hvernig meintum morðingja tókst með ólögmætum hætti að koma höndum yfir skotvopn,” sagði hún.

Íbúar Lundúna minnast Cox.
Íbúar Lundúna minnast Cox. AFP

Vitni segja Cox hafa verið skotna tvisvar eða þrisvar áður en hún var stungin þegar hún lá á jörðinni. Sjötíu og sjö ára maður reyndi að koma henni til aðstoðar og hlaut við það alvarlega áverka á maga en hann er í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Lundúnum kvartaði Cox undan illgjörnum samskiptum fyrr á árinu sem leiddi til þess að maður var handtekinn í mars sl. og veitt viðvörun lögreglu. Collins sagði atvikin tvö ótengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert