Thomas Mair, sem grunaður er um að hafa banað breska þingmanninum Jo Cox, mætti fyrir dómara í Bretlandi í dag. „Dauði fyrir svikara, frelsi fyrir Bretland,” sagði hann fyrir dómi, spurður um nafn. Þegar spurningin var borin undir hann aftur endurtók hann setninguna.
Þegar hann var spurður um fæðingardag og heimilisfang svaraði hann engu og var þögull sem gröfin. Mair, sem er 52 ára, kemur aftur fyrir dóm á mánudag en óskað hefur verið eftir mati á geðheilbrigði hans.
Frétt mbl.is: Morðið á Cox gæti róað baráttuna
Jo Cox var myrt í kjördæmi sínu á fimmtudag fyrir utan bókasafn í bænum Birstall þegar hún var á leið til fundar með kjósendum. Cox var úrskurðuð látin um klukkustund eftir að lögregla fékk tilkynningu um árásina. Hún lætur eftir sig eiginmann og tvö ung börn.