Rannsaka flugritana

Flugritarnir tveir.
Flugritarnir tveir. AFP

Rannsakendur hófu um helgina rannsókn á flugritum egypsku farþegaþotunnar frá EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í síðasta mánuði. Flugritarnir geta mögulega varpað ljósi á það hvers vegna vélin, sem er af gerðinni Airbus A320, fórst á leið sinni frá Par­ís­ar­borg til Kaíró, höfuðborg­ar Egypta­lands.

Allir um borð, 66 manns, létu lífið.

Flugritarnir eru mikið skemmdir og mun það taka mikinn tíma og krefjast fyrirhafnar að laga þá, samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters.

Í tilkynningu frá rannsóknarnefndinni kemur fram að í gær hafi vinna hafist við að ná gögnum, svonefndum minniseiningum, úr flugritunum tveimur. Möguleiki er á því að flugritarnir séu það skemmdir að þeir komi rannsakendum ekki að neinu gagni. Það kemur hins vegar ekki í ljós strax.

Flugritarnir fundust báðir í síðustu viku, en þotan hrapaði 19. maí.

Um­fangs­mik­il leit stóð yfir að flak­inu og flug­rit­un­um í margar vikur og var meðal annars notað skip með neðan­sjáv­ar­vél­menni norðan við strönd Egypta­lands. 

Egypsk stjórnvöld stýra rannsókninni, en fulltrúar frá Bandaríkjunum og Frakklandi eiga jafnframt sæti í rannsóknarnefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert