Rannsakendur hófu um helgina rannsókn á flugritum egypsku farþegaþotunnar frá EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í síðasta mánuði. Flugritarnir geta mögulega varpað ljósi á það hvers vegna vélin, sem er af gerðinni Airbus A320, fórst á leið sinni frá Parísarborg til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands.
Allir um borð, 66 manns, létu lífið.
Flugritarnir eru mikið skemmdir og mun það taka mikinn tíma og krefjast fyrirhafnar að laga þá, samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters.
Í tilkynningu frá rannsóknarnefndinni kemur fram að í gær hafi vinna hafist við að ná gögnum, svonefndum minniseiningum, úr flugritunum tveimur. Möguleiki er á því að flugritarnir séu það skemmdir að þeir komi rannsakendum ekki að neinu gagni. Það kemur hins vegar ekki í ljós strax.
Flugritarnir fundust báðir í síðustu viku, en þotan hrapaði 19. maí.
Umfangsmikil leit stóð yfir að flakinu og flugritunum í margar vikur og var meðal annars notað skip með neðansjávarvélmenni norðan við strönd Egyptalands.
Egypsk stjórnvöld stýra rannsókninni, en fulltrúar frá Bandaríkjunum og Frakklandi eiga jafnframt sæti í rannsóknarnefndinni.