Reyndu að selja falskan „Hugsuð“

Mennirnir reyndu að selja uppboðshúsinu Christies falsaða styttu gegn betri …
Mennirnir reyndu að selja uppboðshúsinu Christies falsaða styttu gegn betri vitund. AFP

Fyrrverandi stjórnarmenn danska uppboðshússins Bruun Rasmussen hafa verið ákærðir fyrir að hafa gert tilraun til að selja falsaða útgáfu af styttunni Hugsuðurinn eftir listamanninn Augustine Rodin.

Ákæran var gefin út fyrir skömmu en í dag ákvað danskur dómstóll að nöfn hinna ákærðu mætti birta opinberlega. Claus Poulsen, framkvæmdastjóri uppboðshússins til 20 ára, og Thomas Høiland, fyrrverandi yfirmaður frímerkjadeildarinnar eru hinir ákærðu.

Þeir tveir eru sakaðir um, í slagtogi við þriðja aðila sem átti styttuna, að hafa reynt að selja falsaða útgáfu af Hugsuðinum til uppboðshússins Christies í Lundúnum fyrir um sex milljónir danskra króna, jafnvel þótt þeir vissu að um eftirlíkingu var að ræða. Sérstök nefnd sem metur verk Augustine Rodins hafði þá þegar skilað af sér greinargerð þar sem fullyrt var að um fölsun væri að ræða.

Styttan Hugsuðurinn eftir Augustine Rodin.
Styttan Hugsuðurinn eftir Augustine Rodin. Mynd/Wikipedia

Eiga mennirnir yfir höfði sér átta ára fangelsi verði þeir fundnir sekir. Þeir neita báðir sakargiftum. Dómsmálið stendur nú yfir og er niðurstöðu að vænta á morgun.

Hefur dómsmálið snúist um það hvort hægt sé að sanna að mennirnir hafi ætlað sér að selja listaverkið áfram til Christies. Mennirnir hafa báðir viðurkennt að hafa logið að fulltrúum Christies um að listaverkið væri raunverulega eftir Rodin. 

Forsaga málsins ævintýri líkust

Eigandi styttunnar, sem naut aðstoðar starfsmanna Bruun Rasmussen, segir að hugmyndin hafi komið frá þeim tveimur. Þeir ræddu saman í fyrsta skiptið árið 2013. Ræddu þeir þá styttuna sem maðurinn átti. Búið var að staðfesta að um fölsun væri að ræða, en þeir leituðu leiða til að koma henni samt í verð. 

Ætluðu þeir að selja styttuna til Christies og fá fyrir hana á milli 4 og 6 milljónir danskra króna. Það tilheyrir sögunni að uppboðshúsið Christies seldi þessa sömu styttu árið 1996 og hélt því þá fram að hún væri ekta.

Ef fulltrúar Christies myndu nú uppgötva að styttan væri fölsuð ætluðu mennirnir að hóta Christies slæmri fjölmiðlaumfjöllun fyrir að hafa selt falsaða styttu árið 1996 og þannig hafa af uppboðshúsinu peninga. Fyrir dómi kom fram að mennirnir töluðu oft um hina fölsuðu styttu sem „lottómiða“.

Ætluðu mennirnir að skipta peningunum jafnt á milli sín. Eigandi styttunnar fór og hitti fulltrúa Christies og undirritaði samning þar sem Christies skuldbatt sig til þess að selja styttuna á uppboði. Aðilarnir deila nú um það fyrir dómi hvort skjalið hafi verið undirritað eða ekki. Christies ákvað svo að fá mat á því hvort styttan væri fölsuð eða ekta og kom í ljós að hún var fölsuð. Christies neitaði þá að selja styttuna og fengu þremenningarnir þá lögfræðinga í málið, til að höfða skaðabótamál gegn Christies. Allt virðist ganga samkvæmt áætlun.

En hér verður málið sérstaklega áhugavert.

Árið 2013 hóf lögreglan nefnilega að hlera síma eins þremenninganna vegna fíkniefnamáls sem var til rannsóknar. Thomas Høiland hafði aðstoðað fíkniefnabarón við að þvo peninga í gegnum frímerkjasölu. Hlaut Høiland fangelsisdóm fyrir það árið 2013. Við símhleranir komst lögreglan að þátttöku Høilands í þessari tilraun til að selja falsaða styttu og mennirnir voru að lokum handteknir.

Sjá frétt Politiken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert