Forstjóri þýska bílaframleiðandans Volkswagen gaf í dag út formlega afsökunarbeiðni vegna svindls sem komst upp um í mengunarprófunum fyrirtækisins. Gerði hann þetta til að róa ósátta hluthafa en í dag fer fram fyrsti hluthafafundur fyrirtækisins frá því að uppljóstrað var um svindlið í september á síðasta ári. Málið hefur haft gríðarleg áhrif á fjárhagsstöðu fyrirtækisins.
„Fyrir hönd Volkswagen Group og allra sem vinna hér, bið ég ykkur hluthafana afsökunar á því að við höfum brugðist trausti ykkar á félaginu,“ sagði forstjórinn, Matthias Mueller.
Hann sagði að svindlið gengi gegn öllu því sem Volkswagen stæði fyrir. Afsökunarbeiðnin kemur níu mánuðum eftir að upp komst að starfsmenn fyrirtækisins höfðu komið fyrir svindlbúnaði í 11 milljónum dísilvéla. Búnaðurinn gerði það að verkum að mengun frá vélunum mældist minni en hún í raun var.
Enn hefur rannsókn sem Volkswagen hét því að hefja vegna málsins, engu skilað. Ekki er enn búið að finna þann, eða þá, sem bera ábyrgð á svindlinu.
Félagið framleiðir 12 tegundir bíla, m.a. Volkswagen, Porsche og Audi. Það á nú yfir höfði sér fjölda hópmálsókna, frá bæði viðskiptavinum og hluthöfum.