„Ég vil ekki fara aftur í fangelsi, ég vil ekki þurfa að eyða lífi mínu í að vera þar,“ segir hlauparinn Oscar Pistorius í viðtali við Guardian. Hann segist vilja trúa því að ef Reeva Steenkamp, kærasta hans sem hann myrti á heimili þeirra, gæti fylgst með honum í dag myndi hún ekki vilja að hann væri í fangelsi.
Hann segir að það sé krefjandi að aðlagast samfélaginu á ný í ljósi frægðar sinnar. Rifjar hann upp ferð í stórmarkaðinn fyrir skömmu þar sem ókunnug kona fór að öskra á hann og var honum afar reið vegna morðsins.
Í viðtalinu tekur Pistorius af sér gervifæturna og gengur um herbergið en þannig var hann þegar hann skaut kærustu sína til bana.
Pistorius var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að valda dauða kærustu sinnar. Því var snúið við og í desember í fyrra ákvað dómari að sakfella hann fyrir morð og er nú komið að því að ákveða refsingu hans.
Hann gæti átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm fyrir morðið á Steenkamp.