Réttarhöld yfir Thomas Mair, sem hefur verið ákærður fyrir morðið á Jo Cox, þingkonu breska Verkamannafloksins, hefjast í nóvember. Dómarinn í málinu tilkynnti um þetta í morgun.
Mair, sem er 52 ára, er sakaður um að skjóta og stinga Cox til bana í breska bænum Birstall síðastliðinn fimmtudag, fyrir réttri viku. Sjötíu og sjö ára karlmaður sem kom Cox til hjálpar var jafnframt stunginn.
Morðið varpaði skugga á kosningabaráttuna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Bretlands í Evrópusambandinu sem fram fer í dag.
Mair mætti fyrir dómara í miðborg Lundúna um síðustu helgi. „Dauði fyrir svikara, frelsi fyrir Bretland,“ sagði hann þegar hann var spurður um nafn sitt. Hann endurtók setninguna þegar spurningin var aftur borin undir hann.
Hann situr í gæsluvarðhaldi en mætir næst fyrir dómara 19. september. Réttarhöldin yfir honum hefjast síðan 14. nóvember, en hann þarf að láta í ljós afstöðu sína gagnvart ákærunni 4. október.
Jo Cox var á leið til fundar með kjósendum í kjördæmi sínu þegar ráðist var á hana. Hún var umsvifalaust flutt á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum. Hún lætur eftir sig eiginmann og tvö ung börn.