Samþykktu sögulegt vopnahlé

Stjórnvöld í Kólumbíu og uppreisnarhópurinn FARC hafa loksins komist að samkomulagi um að leggja niður vopn. Sögulegar friðarviðræður hafa staðið yfir í meira en þrjú ár.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðust deiluaðilar hafa náð samkomulagi um tvíhliða vopnahlé. Nánari efnisatriði samkomulagsins verða gerð opinber í dag.

Á mánudag sagði Juan Manuel Santos, forseti Kolumbíu, að endanlegur friðarsamningur yrði undirritaður fyrir 20. júlí næstkomandi.

Friðarsamningurinn gæti markað endalok á hálfrar aldar átökum á milli kólumbískra stjórnvalda og uppreisnarmanna. Um 220 þúsund manns hafa látið lífið í átökunum og næstum sjö milljónir manna neyðst til þess að leggja á flótta.

Viðræður hafa staðið yfir í Havana, höfuðborg Kúbu, í yfir þrjú ár. Marcela Duran, talsmaður kólumbískra stjórnvalda, tilkynnti í gær að samkomulag hefði náðst en að efnisatriði þess yrðu útskýrð betur á friðarfundi í dag.

Auk Santos, forseta Kólumbíu, og Timoleon Jimenez, leiðtoga FARC, munu Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Raul Castro, forseti Kúbu, og Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sækja fundinn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert