Staðráðnir í að standa saman

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. AFP

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir að fulltrúar aðildarríkja sambandsins muni funda í næstu viku og ræða framtíð Evrópusambandsins án Bretlands.

Á blaðamannafundi í Brussel, höfuðborg Belgíu, í morgun sagðist Tusk hafa rætt við marga leiðtoga Evrópuríkja á undanförnum dögum. Þeir hefðu sammælst um að standa saman, sama hver niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrði. Það væri samhljómur um það.

Tusk sagði það alveg ljóst að leiðtogar Evrópusambandsins hefðu viljað sjá aðra niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi í gær. Niðurstaðan væri vonbrigði. Hann færi ekki í neinar grafgötur með það.

Tusk áréttaði að Evrópulög og aðrar reglur sambandsins myndu áfram gilda í Bretlandi. Engin óvissa væri um það.

„Það er engin leið að segja fyrir um allar þær pólitísku afleiðingar sem þessi ákvörðun mun hafa í för með sér – sérstaklega fyrir Bretland,“ sagði Tusk. Þetta væri söguleg stund, en ekki mætti bregðast við þeirri stöðu sem nú væri komin upp í geðshræringu.

„Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari,“ sagði Tusk að lokum.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagðist ætla að ræða við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir „keðjuverkun“ eins og hann orðaði það. Að önnur Evrópusambandsríki myndu feta í fótspor Breta og yfirgefa sambandið.

Hann sagði að Evrópusambandið væri stærsti innri markaður í heimi og að Bretar hefðu nú slitið tengsl sín við þennan markað. „Það mun hafa afleiðingar í för með sér og ég trúi ekki að önnur ríki vilji feta þá hættulegu leið,“ sagði hann í morgun.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert