Nokkrir skuggaráðherrar Verkamannaflokksins hyggjast segja af sér vegna úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta herma heimildir breska ríkisútvarpsins.
Einn ráðherranna, Heidi Alexander, tilkynnti í morgun um afsögn sína.
Er vaxandi krafa uppi innan Verkamannaflokksins um að leiðtogi hans, Jeremy Corbyn, stígi jafnframt til hliðar.
Hann rak seint í gærkvöldi Hilary Benn, utanríkisráðherra skuggaríkisstjórnar bresku stjórnarandstöðunnar.
Corbyn á yfir höfði sér vantrauststillögu en framganga hans í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur verið harðlega gagnrýnd. Fjölmargir kjósendur flokksins greiddu atkvæði með úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, en formlega var flokkurinn á móti úrsögn.
Er talið að Corbyn hafi ekki beitt sér nægilega í kosningabaráttunni og honum ekki tekist að sannfæra kjósendur flokksins um að greiða atkvæði með áframhaldandi veru Breta í sambandinu.
Corbyn hefur sagst ekki ætla að víkja til hliðar vegna úrslitanna.
Heimildir BBC herma að Benn hafi tapað trausti Corbyns.
Benn hafði áður látið hafa eftir sér að áhyggjur væru uppi um leiðtogahæfni Corbyns sem og hæfni hans til þess að vinna kosningar.
„Ég sagði Jeremy símleiðis að ég hefði misst trú á hæfni hans til þess að leiða flokkinn og hann rak mig,“ segir Benn.