Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur beðið Vladimír Pútín, forseta Rússlands, afsökunar vegna atviks sem átti sér stað við landamæri Sýrlands og Tyrklands í fyrra þegar Tyrkir skutu niður rússneska orrustuflugvél. Atvikið hafði mikil áhrif á samskipti ríkjanna.
Á fréttamannafundi sagði talsmaður stjórnvalda í Moskvu, Dmitry Peskov, að í bréfi sínu hefði Erdogan greint frá samúð sinni og að hann samhryggðist innilega með fjölskyldu rússneska hermannsins sem lést.
Bætti hann við að Erdogan hefði sagt að hann myndi gera „allt til að endurreisa hefðbundin vinsamleg samskipti milli Tyrklands og Rússlands“.