Innkalla kommóðu í kjölfar dauðsfalla

Kommóðan verður eingöngu innkölluð í Norður-Ameríku.
Kommóðan verður eingöngu innkölluð í Norður-Ameríku. AFP

Húsgagnarisanum IKEA ber að innkalla 27 milljónir kommóða af gerðinni Malm í Norður-Ameríku vegna dauða þriggja barna í Bandaríkjunum.

Lars Peterson, forstjóri IKEA í Bandaríkjunum, segir í samtali við fréttastöðina NBC að fyrirtækið hafi hætt sölu á Malm-kommóðunum þar sem þær geti verið hættulegar.

Frá árinu 2014 hafa þrjú börn látið lífið eftir að hafa kramist undir skúffum úr kommóðunni. Í fyrra brýndi fyrirtækið fyrir viðskiptavinum að notast við veggfestingar við húsgagnið.

Í kjölfar andláts þriðja barnsins í febrúar á þessu ári gaf IKEA út viðvörun vegna húsgagnsins, en hefur beðið þar til núna með að innkalla vöruna.

Fyrirtækið segist ekki munu innkalla kommóðurnar í Bretlandi og Írlandi. „IKEA í Bandaríkjunum og Kanada mun innkalla kommóðuna í Norður-Ameríku eingöngu,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá segir fyrirtækið að húsgagnið sé hættulaust, sé það réttilega fest við vegg samkvæmt leiðbeiningum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert