Lýstu yfir vantrausti á Corbyn

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

172 þingmenn breska Verkamannaflokksins samþykktu í atkvæðagreiðslu í dag að lýsa yfir vantrausti á Jeremy Corbyn, formann flokksins.

Aðeins fjörutíu þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti, atkvæði fjögurra þingmanna voru ekki gild og þrettán þingmenn kusu ekki.

Corbyn hyggst samt sem áður ekki segja af sér. Hann segir að atkvæðagreiðslan hafi ekki verið bindandi - og raunar ekki haft lögformlegt gildi - og að hann sé lýðræðislega kjörinn formaður flokksins. Hann ætli ekki að „svíkja“ þá sem kusu hann formann með því að segja af sér.

Bandamenn Corbyns hafa bent gagnrýnendum hans á að boða til formlegs formannskjörs, ef þeir vilji skora hann á hólm.

Fjölmargir skuggaráðherrar Verkamannaflokksins hafa sagt af sér á undanförnum dögum og skorað á Corbyn að gera slíkt hið sama þar sem hann njóti ekki lengur trausts þingflokksins. Flokkurinn barðist formlega gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en framganga Corbyns í kosningabaráttunni var harðlega gagnrýnd.

Margir kjósendur flokksins greiddu atkvæði með útgöngu og hefur formanninum verið kennt um það. Hann hafi staðið sig illa og ekki tekist að sannfæra kjósendur um að greiða atkvæði með áframhaldandi aðild Breta að sambandinu.

Eru háværar kröfur uppi um að Corbyn, sem formaður flokksins, taki afleiðingunum og stígi til hliðar, líkt og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur gert.

Wes Streeting, þingmaður Verkamannaflokksins og einn gagnrýnenda Corbyns, segir að úrslit atkvæðagreiðslunnar í dag hafi verið án fordæma. „Ég held að Jeremy verði að sætta sig við að forysta hans er nú óverjandi.“

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka