Þrjár sjálfsmorðssprengjur sprungu við Ataturk-flugvöllinn í Istanbul í kvöld, skömmu eftir klukkan 22 að tyrkneskum tíma. Alls eru nú 50 manns taldir hafa látist í árásunum og nærri 60 særðir. Margir hinna særðu eru sagðir alvarlega særðir.
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hóf einn árásarmannanna skotárás með Kalashnikov-riffli við brottfararhluta alþjóðlega flugvallarins, áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp,“ sagði Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra landsins, í samtali við AP.
Sjá frétt mbl.is: 28 sagðir látnir í Istanbúl
Bozdag sagði svo við tyrkneska fjölmiðla að önnur sprengjan hafi verið sprengd á brottfararstað innanlandsflugs á flugvellinum.
Recep Erdogan, forseti Tyrklands, kallaði saman neyðarfund í kvöld þar sem yfirmaður tyrkneska hersins og forsætisráðherrann voru gestir hans.
Myndir sem birtar hafa verið í fréttum og á samfélagsmiðlum sýna talsverða eyðileggingu. Þær sýna enn fremur að öflugar sprengjur hafa verið notaðar.
Talið er að hryðjuverkamennirnir hafi reynt að komast í gegnum öryggisgæslu á flugvellinum. Þegar það tókst ekki hófu þeir skotárás á verðina áður en þeir sprengdu sig í loft upp. Einn árásarmannanna sprengdi sig í loft upp á bílastæði fyrir utan.
Ataturk-flugvöllurinn er afar fjölfarinn flugvöllur. Bara á síðasta ári ferðuðust um 60 milljónir manna um flugvöllinn.
Flugvélum, sem voru á leið á Ataturk-flugvöllinn, er nú beint til Ankara eða Izmir samkvæmt FlightRadar.