13 handteknir vegna árásarinnar

Tyrkneskur lögreglumaður á flugvellinum í Istanbúl, þar sem 42 létu …
Tyrkneskur lögreglumaður á flugvellinum í Istanbúl, þar sem 42 létu lífið í hryðjuverkaárás. AFP

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið 13 manns, þar af þrjá útlendinga, í tengslum við rannsókn á sprengjuárásinni á Atatürk flugvellinum í Istanbúl. Handtökurnar koma eftir áhlaup lögreglu á 16 staði í borginni samtímis.

Talið er að í það minnsta einn hinna þriggja árásarmanna á flugvellinum, sem kostaði 42 lífið, hafi verið útlendingur. Hefur fréttaveita Reuters þetta eftir ónefndum tyrkneskum embættismanni. „Við erum að skoða möguleikann á því að útlendingar hafi verið viðriðnir. Það er líklegt að í það minnsta einn þeirra hafi verið útlendingur, en rannsóknin er enn í gangi.“

Komust ekki inn á flugvöllinn

Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá því að árásarmennirnir hafi leigt íbúð í Istanbúl og tekið leigubíl á flugvöllinn að morgni árásardags. Er haft eftir bílstjóranum sem ók þeim, að þeir hafi verið rólegir og ekki virst stressaðir.

Árásarmennirnir áttu í vandræðum með að komast inn í flugstöðvarbygginguna, að sögn tyrkneskra embættismanna. „Þegar þeir komust ekki í gegnum öryggisleitina, þegar þeir komust ekki í gegnum gegnumlýsinguna, lögreglumenn og öryggisverði, snéru þeir við og tóku vopnin úr töskum sínum og hófu skothríð við innritunarborðin“, er haft eftir Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, á vef Guardian

Eftir skothríðina sprengdu árásarmennirnir sig í loft upp, með þeim afleiðingum að fjöldi lét lífið. Borin hafa verið kennsl á 23 Tyrki, sex Sádi-Araba, tvo Íraka, Írana, Kínverja, Jórdana, Túnisa, Úsbeka og Úkraínumann, á meðal látinna.

Tyrknesk stjórnvöld hafa lýst yfir eins dags þjóðarsorg í kjölfar árásarinnar, sem er sú mannskæðasta í hrinu hryðjuverka í landinu undanfarin misseri.

Frétt mbl.is: Þrjár sjálfsmorðssprengjur sprungu

Frétt mbl.is: Segir Ríki íslams bera ábyrgð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert