Aflétta refsiaðgerðum gegn Tyrkjum

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur aflétt banni við leiguflugi á milli Rússlands og Tyrklands. Bannið, sem var sett á seint á síðasta ári, í kjölfar þess að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu, hefur skaðað ferðaþjónustuna í Tyrklandi.

Tyrkland er vinsæll áfangastaður rússneskra ferðamanna.

Pútín tilkynnti um afléttinguna í dag og boðaði jafnframt viðræður um viðskiptasamninga við tyrknesk stjórnvöld.

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, bað fyrr í vikunni rússnesk stjórnvöld afsökunar á atvikinu.

Pútín ræddi símleiðis við Erdogan í gær og tilkynnti honum þá um áform sín um að aflétta banninu.

Pútín fordæmdi um leið hryðjuverkaárásina á Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl.

Erdogan vottaði fyrr í vikunni Pútín og fjölskyldu rússneska flugmannsins sem lést í slysinu samúð sína.

Herþotan var skotin niður nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands í nóvembermánuði í fyrra. Tyrknesk stjórnvöld hafa haldið því fram að þotan hafi verið í tyrkneskri lofthelgi.

Samskipti á milli þjóðanna hafa verið stirð síðan Stjórnvöld í Moskvu vöruðu til að mynda rússneska ríkisborgara við því að ferðast til Tyrklands og eins voru Rússar í Tyrklandi hvattir til að snúa heim.

Pútín sagðist hafa verið stunginn í bakið og sakaði Erdogan um að vinna með hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Gripu Rússar til efnahagslegra refsiaðgerða gegn Tyrkjum og bönnuðu meðal annars innflutning á tyrkneskum landbúnaðarvörum. Gaf Pútín um leið í skyn að refsiaðgerðunum yrði ekki aflétt fyrr en Tyrkir bæðust afsökunar á árásinni.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert