Dönskum lögum beitt í fyrsta sinn

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dönskum lögum sem heimila yfirvöldum að gera fjármuni og hluti í fórum hælisleitenda upptæka, sé verðmæti þeirra yfir 10.000 dönskum krónum, um 183.000 íslenskum, hefur nú verið beitt í fyrsta sinn.

Politiken greinir frá því að lögregla hafi handtekið fimm útlendinga á Kastrup flugvelli á þriðjudag, sem reyndu að komast til Danmerkur með fölsuðum skilríkjum. Höfðu þau í fórum sínum evrur og Bandaríkjadali að verðmæti 129.000 danskra króna, eða tæplega tveggja og hálfrar milljóna íslenskra.

Voru peningar að andvirði 79.000 danskra króna því gerðir upptækir, en það er upphæðin sem eftir stendur þegar 10.000 danskar krónur hafa verið dregnar af heildarfundinum fyrir hvern einstakling. Hópurinn sem var handtekinn kemur frá Íran og samanstendur af tveimur körlum og þremur konum, á aldrinum 26 til 35 ára. Munu þau sækja um hæli í Danmörku.

Lögin tóku gildi í febrúar og þessu ári og þykja umdeild. Hlutverk þeirra er að gera stöðu hælisleitenda sambærilega stöðu atvinnulausra í Danmörku, en þeir verða að selja hluta af sín­um eig­um til að geta farið fram á bæt­ur frá rík­inu. Eiga þau verðmæti sem tekin eru af hælisleitendum að vera notuð í kostnað við uppihald þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert