Ekki heiðursmorð heldur sjálfsvíg

Heiðursmorð eru algeng í Pakistan.
Heiðursmorð eru algeng í Pakistan. AFP

Lögreglan í Pakistan segir að táningsstúlka, sem talið var að hefði verið brennd lifandi fyrir að neita að giftast, hafi í raun framið sjálfsvíg.

Mannréttindasamtök sem og faðir stúlkunnar hafna þessum skýringum lögreglunnar alfarið.

Stúlkan hét Maria Sadaqat og var nítján ára. Fréttir af dauða hennar voru fluttar víða um heim því talið var að hún hefði verið pyntuð og í henni kveikt fyrir að hafna bónorði.

Hundruð kvenna eru drepnar árlega í Pakistan í svokölluðum heiðursmorðum. 

Fréttir hermdu að hópur fólks hefði ráðist á Sadaqat í borginni Murree í maí, skammt frá höfuðborgini Islamabad. Hún hefði látist af sárum sínum nokkrum dögum síðar. 

Lögreglan sagði þá að stuttu áður en hún lést hafi hún sagt að maðurinn sem hefði beðið hennar, faðir hans og fleiri, hefðu verið meðal árásarmannanna. 

En í dag segir lögreglan að Sadaqat hafi sagt á dánarbeði sínu að hún hefði átt í sambandi við vonbiðilinn í mörg ár. Segir lögreglan jafnframt að þúsundir textaskilaboða hafi gengið þeirra á milli og hafi hún m.a. grátbeðið manninn um að giftast sér.  Þá heldur lögreglan því fram að stúlkan hafi sagt við manninn að hann yrði gerður ábyrgur, myndi hún svipta sig lífi.

Lögreglan segir að bensínið sem hellt hafði verið yfir stúlkuna hafi komið frá verkstæði föður hennar og engin sönnunargögn styddu þá kenningu að á hana hafi verið ráðist.

Faðir stúlkunnar segir þetta uppspuna hjá lögreglunni. „Þetta er hræðilegt, að lögreglan breyti framburði og hagræði rannsókn málsins til að styðja þá sem sakaðir voru um glæpinn,“ segir Sadaqat Hussain í samtali við AFP-fréttastofuna. „Við erum fátæk, svo hvað getum við gert?“

Lögfræðingur og baráttukona fyrir réttindum kvenna, Asma Jehangir, hefur sett á laggirnar rannsóknarteymi vegna málsins. Hún hafnar niðurstöðu lögreglunnar. „Þetta lítur ekki út fyrir að vera sjálfsvíg. Hendur stúlkunnar voru ekki brenndar,“ segir hún m.a. máli sínu til stuðnings. „Og ef hún vildi svipta sig lífi hefði hún gleypt eitthvað eitur eða skotið sig í staðinn fyrir að leggja þvílíka þjáningu á sjálfa sig.“

Jehangir segir einnig grunsamlegt að allir mennirnir, sem lögreglan sagði að stúlkan hefði nafngreint áður en hún lést, hafi lagt á flótta í stað þess að stíga fram og leiðrétta orð hennar.

Jehangir fer fram á að ríkisstjórn Pakistan láti rannsaka málið ofan í kjölinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert