Gíslataka á kaffihúsi í Bangladess

AFP

Byssumenn réðust í kvöld inn á vinsælt kaffihús í Dhaka, höfuðborg Bangladess, og tóku þar gísla, að sögn yfirvalda.

Óstaðfestar fregnir herma að erlendir ferðamenn séu á meðal þeirra sem eru í haldi. Kaffihúsið er í Gulshan-hverfinu í borginni.

Að minnsta kosti þrír særðust, þar á meðal tveir lögregluþjónar, í skotbardaga sem kom til á milli byssumannanna og lögreglu.

Öryggissveitir lögreglunnar hafa girt svæðið í kringum kaffihúsið af og eiga nú í viðræðum við mennina um að sleppa gíslunum, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

„Við viljum leysta þetta friðsamlega. Við erum að reyna að tala við árásarmennina. Forgangsmál okkar er að bjarga lífum þeirra sem eru fastir inni,“ segir Benazir Ahmed lögreglustjóri.

Fjölmiðlar í Bangladess greindu frá því í kvöld að nokkrir byssumenn hefðu ráðist inn á kaffihúsið Holey Artisan Bakery og hafið skothríð.

Kaffihúsið er vinsælt á meðal embættismanna, útlendinga og millistéttarfjölskyldna, að því er segir í frétt BBC.

The Dhaka Tribune segir að í það minnsta tuttugu óbreyttir borgarar séu á meðal gíslanna.

Ekki er ljóst hverjir árásarmennirnir eru, en lögregluþjónn sagði í samtali við BBC að íslamistar lægju undir grun.

Vitni segjast hafa heyrt einhvern á vettvangi kalla „Allahu Akbar“ sem þýðir „Guð er mestur“.

Fréttin verður uppfærð

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert