Staðfest er að níu Ítalir, sjö Japanir, Bandaríkjamaður og Indverji hafi verið drepnir í árás vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á kaffihús í miðbæ Dhaka, höfuðborgar Bangladess, í gærkvöldi.
Alls féllu tuttugu manns í árásinni.
Byssumenn réðust inn á kaffihúsið Holey Artisan Bakery seint í gærkvöldi og tóku þar gísla. Gíslatökunni lauk ekki fyrr en tólf klukkutímum síðar þegar hermenn réðust inn á staðinn.
Sex vígamenn voru myrtir og einn handtekinn, að sögn yfirvalda. Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, lýsti í morgun yfir tveggja daga þjóðarsorg í landinu.
„Við fundum tuttugu lík. Flestir höfðu verið grimmilega brytjaðir til dauða með eggvopnum,“ sagði talsmaður hersins
Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði að eins Ítala væri auk þess saknað. Margir Ítalir starfa í landinu.
Japönsk yfirvöld sögðu að einn Japani hefði verið á meðal þeirra þrettán gísla sem var bjargað. Japanirnir sjö sem féllu í árásinni voru ráðgjafar á vegum japönsku utanríkisþjónustunnar.
Bandaríska utanríkisráðunneytið staðfesti í dag að einn Bandaríkjamaður hefði látið lífið í árásinni. Hvíta húsið fordæmdi árásina harðlega. „Við erum í sambandi við yfirvöld í Bangladess og höfum boðið alla nauðsynlega aðstoð,“ sagði talsmaður Hvíta hússins.
Frétt mbl.is: Skildu að útlendinga og heimamenn