Spretthlauparinn Oscar Pistorius gæti farið aftur í fangelsi á miðvikudaginn þegar refsing verður ákveðin vegna morðs hans á kærustu sinni Reeve Steenkamp fyrir þremur árum síðan.
Pistorius losnaði úr fangelsi í borginni Pretoria í Suður-Afríku í október eftir að hafa afplánað eitt ár af fimm ára dómi sem hann fékk fyrir manndráp af gáleysi.
Áfrýjunardómstóll breytti dóminum og sakfelldi hann fyrir morð.
Dómstóllinn dæmir menn venjulega í að minnsta kosti 15 ára fangelsi fyrir morð. Vegna þess að Pistorius hefur þegar afplánað dóm og vegna fötlunar hans eru taldar líkur á því að dómurinn verði vægari.
Pistorius, sem er 29 ára, skaut Steenkamp til bana á Valentínusardag árið 2013. Hann skaut hana fjórum sinnum í gegnum baðherbergisdyrnar á heimili sínu og sagðist hafa haldið að hún væri innbrotsþjófur.