Nigel Farage stígur til hliðar

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Nigel Farage sagðist í morgun ætla að stíga til hliðar sem leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins, UKIP.

„Á meðan þjóðaratkvæðagreiðslunni stóð sagðist ég vilja fá landið mitt aftur, nú vil ég fá lífið mitt aftur,“ sagði hann. Flokkurinn væri nú í góðri stöðu.

Hann sagðist ekki ætla að skipta um skoðun, og hætta við að hætta, líkt og hann gerði eftir þingskosningarnar árið 2015. Hann náði ekki kjöri á þing í kosningunum og í kjölfarið sagði hann af sér sem formaður flokksins. Hann breytti hins vegar um skoðun og tók aftur við leiðtogaembættinu.

Á blaðamannafundi í morgun sagði hann að það myndi ekki koma aftur fyrir.

Farage sagði að sigur útgöngusinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní síðastliðinn þýddi að pólitískum metnaði hans hefði verið fullnægt. 

Hann hefði ekki byrjað í stjórnmálum á sínum tíma til þess að verða atvinnustjórnmálamaður.

„UKIP er í góðri stöðu og mun áfram, með fullum stuðningi mínum, laða að sér mörg atkvæði,“ sagði hann. Þó svo að samþykkt hafi verið að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið, þá væru skilmálar úrsagnarinnar enn óljósir. Bresk stjórnvöld mættu nú ekki gefa eftir. Verkefni UKIP væri að veita stjórnvöldum aðhald í úrsagnarferlinu.

Hann sagði það hafa verið erfitt á köflum að stýra flokknum, en ávallt þess virði. Hann bætti við að Bretar þyrftu nú að fá nýjan forsætisráðherra sem hefði stutt útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Farage er á meðal umdeildustu stjórnmálamanna í Evrópu. Hann hefur leitt breska sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2010, en hann leiddi einnig flokkinn á árunum 2006 til 2009. Hann er jafnframt einn af stofnendum flokksins. Sagði hann sig úr breska Íhaldsflokknum árið 1992.

Farage hefur setið á Evrópuþinginu frá árinu 1999. Hann hefur gagnrýnt Evrópusambandið og ráðamenn þess harðlega og var einn helsti talsmaður þess að Bretar segðu skilið við sambandið.

Enginn þingmaður hefur lagt fram fleiri vantrauststillögur á hendur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en hann.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka