Stuðningsmaður Íslands stunginn í París

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Breskur stuðningsmaður íslenska knattspyrnulandsliðsins á EM í Frakklandi var stunginn í París í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í París er hann ekki í lífshættu.

Ráðist var á manninn nærri Gare du Nord-lestarstöðinni að því er fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar um málið en þar kemur fram að maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús í París þar sem gert var að sárum hans.

Lögregla hefur handtekið mann sem grunaður er um stunguárásina, en hann er af indverskum uppruna skv. upplýsingum frá lögreglunni. Ekki er vitað hvers vegna hann réðst á stuðningsmann Íslands. 

Dagblaðið Le Parisien hefur eftir kærustu fórnarlambsins að árásarmaðurinn og fórnarlambið hefðu rifist áður en fórnarlambið var stungið.

Uppfært klukkan 14:55

Breski miðillinn Mirror greinir frá því að fórnarlambið hafi verið 25 ára breskur lögregluþjónn á frívakt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert