Alls 30 ákærðir vegna árásarinnar

Menn­irn­ir á mynd­inni eru tald­ir vera árás­ar­menn­irn­ir sem sprengdu sig …
Menn­irn­ir á mynd­inni eru tald­ir vera árás­ar­menn­irn­ir sem sprengdu sig í loft upp á flug­vell­in­um í Ist­an­búl. AFP

Sautján menn, þar af ellefu Rússar og sex Tyrkir, voru ákærðir í dag, sakaðir um að tengjast sprengjuárásinni á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl fyrir viku. Er heildarfjöldi þeirra sem ákærðir hafa verið því kominn upp í þrjátíu, en tyrkneska lögreglan handtók 13 manns í síðustu viku.

Tyrkneska fréttastofan Dogan greinir frá þessu í dag, en þar kemur fram að mennirnir tilheyri hryðjuverkasamtökum. Yfirvöld í Tyrklandi segja Ríki íslams standa að baki árásinni, sem kostaði 42 lífið. Yfir 200 særðust í árásinni og eru 47 þeirra enn á sjúkrahúsi.

Yfirvöld í landinu hafa greint frá því að árásarmennirnir þrír á flugvellinum hafi verið frá Rússlandi, Úsbekistan og Kyrgistan.

Fjallað hefur verið um það í tyrkneskum fjölmiðlum að árás­ar­menn­irn­ir hafi leigt íbúð í Ist­an­búl og tekið leigu­bíl á flug­völl­inn að morgni árás­ar­dags. Er haft eft­ir bíl­stjór­an­um sem ók þeim, að þeir hafi verið ró­leg­ir og ekki virst stressaðir.

Árás­ar­menn­irn­ir áttu í vand­ræðum með að kom­ast inn í flug­stöðvar­bygg­ing­una, að sögn tyrk­neskra emb­ætt­is­manna. „Þegar þeir komust ekki í gegn­um ör­ygg­is­leit­ina, þegar þeir komust ekki í gegn­um gegnum­lýs­ing­una, lög­reglu­menn og ör­ygg­is­verði, sneru þeir við og tóku vopn­in úr tösk­um sín­um og hófu skot­hríð við inn­rit­un­ar­borðin,“ var haft eft­ir Binali Yild­irim, for­sæt­is­ráðherra Tyrk­lands, í síðustu viku. 

Eft­ir skot­hríðina sprengdu árás­ar­menn­irn­ir sig í loft upp, með þeim af­leiðing­um að fjöldi lét lífið. Bor­in hafa verið kennsl á 23 Tyrki, sex Sádi-Ar­aba, tvo Íraka, Írana, Kín­verja, Jórd­ana, Tún­isa, Úsbeka og Úkraínu­mann, á meðal lát­inna.

Tyrk­nesk stjórn­völd lýstu yfir eins dags þjóðarsorg í kjöl­far árás­ar­inn­ar, sem er sú mann­skæðasta í hrinu hryðju­verka í land­inu und­an­far­in miss­eri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert