Sautján menn, þar af ellefu Rússar og sex Tyrkir, voru ákærðir í dag, sakaðir um að tengjast sprengjuárásinni á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl fyrir viku. Er heildarfjöldi þeirra sem ákærðir hafa verið því kominn upp í þrjátíu, en tyrkneska lögreglan handtók 13 manns í síðustu viku.
Tyrkneska fréttastofan Dogan greinir frá þessu í dag, en þar kemur fram að mennirnir tilheyri hryðjuverkasamtökum. Yfirvöld í Tyrklandi segja Ríki íslams standa að baki árásinni, sem kostaði 42 lífið. Yfir 200 særðust í árásinni og eru 47 þeirra enn á sjúkrahúsi.
Yfirvöld í landinu hafa greint frá því að árásarmennirnir þrír á flugvellinum hafi verið frá Rússlandi, Úsbekistan og Kyrgistan.
Fjallað hefur verið um það í tyrkneskum fjölmiðlum að árásarmennirnir hafi leigt íbúð í Istanbúl og tekið leigubíl á flugvöllinn að morgni árásardags. Er haft eftir bílstjóranum sem ók þeim, að þeir hafi verið rólegir og ekki virst stressaðir.
Árásarmennirnir áttu í vandræðum með að komast inn í flugstöðvarbygginguna, að sögn tyrkneskra embættismanna. „Þegar þeir komust ekki í gegnum öryggisleitina, þegar þeir komust ekki í gegnum gegnumlýsinguna, lögreglumenn og öryggisverði, sneru þeir við og tóku vopnin úr töskum sínum og hófu skothríð við innritunarborðin,“ var haft eftir Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, í síðustu viku.
Eftir skothríðina sprengdu árásarmennirnir sig í loft upp, með þeim afleiðingum að fjöldi lét lífið. Borin hafa verið kennsl á 23 Tyrki, sex Sádi-Araba, tvo Íraka, Írana, Kínverja, Jórdana, Túnisa, Úsbeka og Úkraínumann, á meðal látinna.
Tyrknesk stjórnvöld lýstu yfir eins dags þjóðarsorg í kjölfar árásarinnar, sem er sú mannskæðasta í hrinu hryðjuverka í landinu undanfarin misseri.