Hljóðupptökur úr flugrita farþegaþotu EgyptAir í flugi MS804 í síðasta mánuði gefa til kynna að tilraunir hafi verið gerðar til þess að slökkva eld um borð í þotunni áður en hún hrapaði í Miðjarðarhafið.
Þetta herma heimildir fréttaveitu Reuters innan raða egypsku nefndarinnar sem rannsakar hrapið.
Þotan, sem er af gerðinni Airbus 320, hrapaði til jarðar er hún var á leið frá París til Kaíró 19. maí síðastliðinn. Allir farþegarnir um borð, 66 talsins, létu lífið. Ekki er vitað hvað olli því að þotan hrapaði.
Fyrstu upplýsingar úr flugrita vélarinnar gáfu til kynna að reykur hafi verið í framhluta þotunnar, sérstaklega á salerni og í vélarrými fyrir neðan flugstjórnarklefann. Reykskynjarar þar fóru í gang aðeins nokkrum mínútum áður en þotan hvarf af ratsjá.
Flugritar þotunnar fundust í síðasta mánuði mikið skemmdir. Þeir hafa hins vegar verið lagfærðir og fluttir til Kaíró. Samkvæmt heimildum Reuters gefur annar þeirra til kynna að eldur hafi komið upp í þotunni.
Rannsakendur eiga þó eftir að skoða flugritana betur og hafa ekki enn útilokað neina möguleika á því hvað olli hrapinu.