Blair: Engum blekkingum beitt

Tony Blair hyggst svara gagnrýni nefndarinnar í dag og segist …
Tony Blair hyggst svara gagnrýni nefndarinnar í dag og segist munu axla fulla ábyrgð á þeim mistökum sem voru gerð. AFP

Tony Blair hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar birtingar Chilcot-skýrslunnar um aðkomu Breta að Írakstríðinu. Hann segir hana sýna fram á að ásakanir um lygar og blekkingar eigi ekki við rök að styðjast og að ákvörðun sín um að grípa til hernaðaraðgerða gegn Saddam Hussein hafi verið tekin í góðri trú og í þágu bresku þjóðarinnar.

Í yfirlýsingu sinni dregur Blair fram nokkrar staðreyndir sem settar eru fram í skýrslunni og honum þykja markverðar. Hann segir það m.a. hafa verið niðurstöðu nefndarinnar að upplýsingar hafi ekki verið falsaðar eða misnotaðar. Þá hafi nefndin ekki fundið sannanir þess að ríkisstjórn hans hafi verið beitt blekkingum.

Blair ítrekar einnig að Chilcot-nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að bresk stjórnvöld hafi ekki skuldbundið Breta í stríðsrekstur á laun, hvorki í Crawford í Texas í apríl 2002 né annars staðar.

Hann segir að þrátt fyrir að engar ályktanir séu dregnar um lögmæti hernaðaraðgerðanna sé tekið fram að ríkislögmaður hefði komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðirnar byggðust á lögmætum grunni fyrir 13. mars 2003.

Forsætisráðherrann fyrrverandi segir hins vegar ljóst að í skýrslunni sé ýmsa gagnrýni að finna, t.d. varðandi undirbúning og skipulagningu, og sambandið við Bandaríkin. Um sé að ræða alvarlega gagnrýni sem krefjist alvarlegra svara.

Blair hyggst veita ítarleg svör seinna í dag og segist munu axla ábyrgð á þeim mistökum sem voru gerð, undanbragðalaust og án afsakana.

„Á sama tíma mun ég engu að síður ítreka að ég trúi því að það hafi verið betra að fjarlægja Saddam Hussein, og hvers vegna ég tel þetta ekki vera ástæðu þeirrar hryðjuverkastarfsemi sem við horfum upp á í dag, hvort sem er í Mið-Austurlöndum eða annars staðar í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert