Í dag verður hin svokallaða Chilcot-skýrsla gerð opinber en um er að ræða niðurstöður rannsóknar sérstakrar nefndar sem Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Breta, tilkynnti um 15. júní 2009. Hlutverk nefndarinnar var að fara í saumana á aðkomu Breta að innrásinni í Írak, Íraksstríðinu og eftirmálum þess, árin 2001-2009.
Nefndinni var ætlað ár til að skoða málið til hlítar en rannsóknin hefur tekið alls sjö ár og kostað 10 milljónir punda. Skýrslan telur 12 bindi og 2,6 milljónir orða. Hún hefur verið nefnd í höfuðið á sir John Chilcot, sem fór fyrir nefndinni.
Chilcot hefur sagt að í skýrslunni séu tíunduð þau tilvik þar sem nefndin varð vör gagnrýniverðra ákvarðana eða hegðunar. Sá sem á einna mest undir er Tony Blair, sem var forsætisráðherra þegar ákvörðun um þátttöku Breta var tekin, og samkvæmt Guardian mun kastljósið m.a. beinast að því hverju ráðherrann lofaði George Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, og hvort Blair beitti þingmenn og almenning blekkingum varðandi meinta ógn vegna gjöreyðingarvopna, sem í ljós kom að var tilbúningur.
Væntingar eru uppi um að í skýrslunni verði því einnig svarað hvers vegna upplýsingar sem komu frá leyniþjónustunni MI6 reyndust rangar og hvort stofnunin heimilaði að upplýsingar væru bjagaðar í pólitískum tilgangi. Þá vilja menn fá svör við því hvort yfirmenn í hernum hefðu raunverulega verið undirbúnir fyrir stríðið og eftirleik þess.
Guardian hefur eftir sérfræðingum að ólíklegt verði að teljast að nefndin taki afstöðu til þess hvort ákvörðunin um þátttöku Breta í Írakstríðinu hafi verið lögmæt. Í nefndinni sat enginn lögmaður. Þá sé ólíklegt að skýrslan gefi tilefni til þess að draga Blair fyrir dómstóla vegna stríðsglæpa.