„Ég verð með þér, sama hvað“

Tony Blair og George W. Bush.
Tony Blair og George W. Bush.

Meðal þeirra gagna sem gerð hafa verið opinber í Chilcot-skýrslunni um aðkomu Breta að Írakstríðinu, eru erindi sem Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, sendi George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

„Það er raunverulegur vilji til í Mið-Austurlöndum til að koma Saddam frá en algjör andstaða við að blanda því inn í yfirstandandi aðgerðir [loftárásir í Afganistan]... Ég hef engar efasemdir um að við þurfum að afgreiða Saddam. En ef við látum til skarar skríða gegn Írak núna töpum við arabaheiminum, Rússlandi, líklega helmingi ESB-ríkjanna og ótti minn er áhrif þessa alls á Pakistan. Hinsvegar er ég sannfærður um að við getum smíðað áætlun varðandi Saddam til að framkvæma síðar.“

Þannig hljóðar erindi sem Blair sendi Bush 11. október 2001 en það sýnir fram á að leiðtogarnir ræddu að koma Saddam Hussein frá völdum þegar aðeins mánuður hafði liðið frá árásunum á tvíburaturnanna.

Í öðru erindi, dagsettu 4. desember 2001, sagði Blair að útkoman í Afganistan skipti máli fyrir „Phase 2“; ef vel færi myndi bandamönnum takast að sýna fram á að stjórnarskipti (e. regime change) væru framkvæmanleg, sem myndi hjálpa við að sannfæra menn um fýsileika þess að grípa til aðgerða varðandi Írak.

„Ég verð með þér, sama hvað“ segir Blair í enn einu erindi, sem var merkt „Secret Personal“. Þar segir hann m.a. að það eina rétta í stöðunni sé að koma Saddam frá; stjórn hans sé sú grimmilegasta og ómannúðlegasta í heiminum.

„Fyrsta spurningin er: Viltu/þarfnastu bandalags til að koma honum frá? Bandaríkin gætu gert það ein, með stuðningi Bretlands. Hættan er, eins og alltaf þegar kemur að þessum hlutum, óætlaðar afleiðingar,“ segir forsætisráðherrann þáverandi, í bréfi dagsettu 28. júlí 2002.

Hann segir hættuna m.a. felast í því að Saddam upplifði pólitíska stöðu sína þannig að hann hætti á að beita gjöreyðingarvopnum. Þá bendir hann á að almennir borgarar í Írak gætu haft skiptar skoðanir á innrás og veitt innrásarhernum andspyrnu.

„Ef við sigrum skjótt, verða allir vinir okkar. Ef við gerum það ekki, og þeir hafa ekki verið fengnir með fyrirfram, þá verða gagnásakanir fljótar að fljúga,“ segir Blair í erindinu, sem hvorki utanríkisráðherrann Jack Straw né varnarmálaráðherrann Geoff Hoon fengu að sjá áður en það var sent.

Rússland líklegasti bandamaðurinn?

Í orðsendingu sem Blair sendi Bush 28. júlí 2002 sagðist hann hvorki telja að Þjóðverjar né Frakkar, né heldur Spánverjar og Ítalir, myndu styðja aðgerðir Breta og Bandaríkjamanna án aðkomu Sameinuðu þjóðanna. Þá væri almenningsálitið í Evrópu og Arabaríkjunum ekki á pari við almenningsálitið vestahafs.

„Um þessar mundir get ég, í Bretlandi, hvorki verið viss um stuðning þingsins, flokksins, almennings né allrar ríkisstjórnarinnar. Og þetta er Bretland. Í Evrópu almennt virðist fólk ekki jafn ákaft í kjölfar 9/11 eins og í Bandaríkjunum... Eins og sakir standa kann Rússland að vera okkar helsti bandamaður, eins skringilega og það hljómar.“

Tíst rússneska sendiráðsins í dag setur vangaveltur Blair í samhengi.

Hinn 28. júlí 2002 reit Blair Bush enn eitt erindið þar sem hann ítrekaði að Bandaríkjamenn og Bretar þyrftu að leggja fram gögn til að rökstyðja aðgerðir í Írak. Sagði hann m.a. að sönnunargögn er vörðuðu gjöreyðingarvopn, tilraunir Saddam til að komast yfir kjarnorkuvopn, og hugsanleg tengsl við al-Kaída, myndu gera mikið til að breyta afstöðu  manna til aðgerða. Það til viðbótar við „andstyggilegt eðli“ Íraksstjórnar.

Ítarlegri samantekt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert