Sir John Chilcot, formaður nefndarinnar sem hefur rannsakað aðild Breta að Íraksstríðinu, segist vonast til þess að skýrsla nefndarinnar verði til þess að Bretar taki aldrei aftur þátt í stríði nema að vandlega íhuguðu máli.
Rannsókn nefndarinnar hefur tekið sjö ár en Chilcot segir umfang hennar fordæmalaust. Til skoðunar var níu ára tímabil en fyrir utan að hlýða á vitnisburð þeirra sem áttu aðkomu að stríðinu, aðdraganda þess og eftirleik, rýndi nefndin í 150.000 skjöl.
Að sögn Chilcot reyndist m.a. tímafrekt að fá stjórnvöld til að samþykkja birtingu gagna sem rata venjulega ekki fyrir augu almennings, s.s. um samskipti innan ríkisstjórnarinnar og samskipti við stjórnvöld og leiðtoga annarra ríkja.
#ChilcotReport pic.twitter.com/Lh3CMAotbv
— Faisal Islam (@faisalislam) July 6, 2016
Chilcot sagði einnig að fjöldi einstaklinga og stofnana væri gagnrýndur í skýrslunni, en á grundvelli sönnunargagna og nákvæmrar greiningar.
„Ég gerði það ljóst strax við upphaf rannsóknarinnar að ef við yrðum vör við ákvarðanir eða hegðun sem væri gagnrýniverð myndum við ekki veigra okkur við því. Og það hafa sannarlega verið fleiri en nokkur tilfelli þar sem við höfum verið tilneydd til þess. En við gerum það á grundvelli nákvæmrar greiningar þeirra sönnunargagna sem styðja þá niðurstöðu. Við erum ekki dómstóll, ekki dómari né kviðdómur, en við höfum leitast við að uppfylla ýtrustu viðmið um nákvæma greiningu sönnunargagna í þeim tilfellum þar sem við erum gagnrýnin,“ segir Chilcot.
Guardian verður með beina lýsingu vegna útgáfu Chilcot-skýrslunnar.