Pistorius fékk sex ára dóm

Oscar Pistorius.
Oscar Pistorius. AFP

Sprett­hlaup­ar­inn Oscar Pistorius hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir morð en hann skaut unnustu sína Reevu Steenkamp til bana á Valentínusardaginn fyrir þremur árum.

Refsing vegna morðs hans á Steenkamp var kveðin upp af dómaranum Thokozile Masipa rétt í þessu. Dóm­stóll­inn dæm­ir menn venju­lega í að minnsta kosti 15 ára fang­elsi fyr­ir morð, en Masipa vék frá þessu með þeim rökum að Pistorius hafi þegar afplánað dóm og vegna fötlunar hans. 

Masipa sagði að löng fangelsisvist myndi ekki þjóna tilgangi sínum í þessu máli. Pistorius væri ólíklegur til að fremja endurtekin brot og hann hafi sýnt mikla iðrun í gegnum réttarhöldin. Þar að auki sé hann viðkvæmur og eigi erfitt uppdráttar í fangelsi. Sagði hún að annars konar meðferðir hentuðu betur fyrir Pistorius.

Pistorius losnaði úr fang­elsi í borg­inni Pret­oria í Suður-Afr­íku í októ­ber eft­ir að hafa afplánað eitt ár af fimm ára dómi sem hann fékk fyr­ir mann­dráp af gá­leysi. Áfrýj­un­ar­dóm­stóll breytti dóm­in­um í desember og sak­felldi hann fyr­ir morð. Réttarhöldin hafa staðið yfir í tæpan mánuð í Pretoria, höfuðborg Suður-Afríku.

Pistorius, sem er 29 ára gamall, skaut Steenkamp fjór­um sinn­um í gegn­um baðher­berg­is­dyrn­ar á heim­ili sínu en hann hefur alla tíð haldið því fram að hann hafi talið inn­brotsþjóf vera á bak við hurðina sem hann skaut á. Að sögn Masipa hafði það einnig áhrif á mildun refsingarinnar að Pistorius hafi reynt að bjarga lífi Steenkamp eftir að hann hafi áttað sig á því að það var hún sem hann skaut. Þá hafi hann ítrekað reynt að biðja fjölskyldu hennar afsökunar.

Pistorius mun geta áfrýjað dómnum, en ekki er ljóst ennþá hvort hann muni gera það. Hann verður færður í fangelsi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka