„Svona kemstu upp með morð“

Oscar Pistorius var dæmdur í 6 ára fangelsi í morgun.
Oscar Pistorius var dæmdur í 6 ára fangelsi í morgun. AFP

Refsing sem kveðin var upp yfir Oscari Pistorius í morgun hefur vakið hörð viðbrögð á Twitter, og virðast margir ósáttir við það að hann hafi aðeins fengið sex ára dóm fyrir morð. Eins og kunnugt er skaut Pistorius unnustu sína Reevu Steenkamp til bana á valentínusardaginn fyrir þremur árum.

Frétt mbl.is: Pistorius fékk sex ára dóm

Pistorius losnaði úr fang­elsi í borg­inni Pret­oríu í Suður-Afr­íku í októ­ber eft­ir að hafa afplánað eitt ár af fimm ára dómi sem hann fékk fyr­ir mann­dráp af gá­leysi. Áfrýj­un­ar­dóm­stóll breytti dóm­in­um í des­em­ber og sak­felldi hann fyr­ir morð. Í morgun var refsing svo kveðin upp yfir honum; sex ára fangelsi. 

Dóm­stóll­inn dæm­ir menn venju­lega í að minnsta kosti 15 ára fang­elsi fyr­ir morð, en dómarinn Tho­kozile Masipa vék frá þessu og taldi upp fjölmargar staðreyndir sem hún taldi til mildunar dómsins. Sú staðreynd að hann hefði reynt að bjarga lífi Steenkamp eftir að hann skaut hana hafi átt stóran þátt í mildun dómsins, sem og sú staðreynd að hann hafi ítrekað reynt að biðja fjölskyldu hennar afsökunar.

Masipa sagði að löng fang­elsis­vist myndi ekki þjóna til­gangi sín­um í þessu máli. Pistorius væri ólík­leg­ur til að fremja end­ur­tek­in brot og hann hefði sýnt mikla iðrun í gegn­um rétt­ar­höld­in. Þar að auki væri hann viðkvæm­ur og ætti erfitt upp­drátt­ar í fang­elsi. 

Fréttakonan Karyn Maughan segir frá því á Twitter að Pistorius muni ekki áfrýja dómnum, enda segi verjendur hans niðurstöðuna sanngjarna. Ríkið geti þó ekki útilokað að málinu verði áfrýjað af þeirra hálfu. 

Þá segja aðrir fréttamenn á svæðinu frá því á Twitter að Pistorius muni geta losnað út úr fangelsi eftir að hafa setið inni þriðjung af tímanum. Hann geti því hugsanlega losnað út eftir tvö ár. Pistorius verður færður í fangelsi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert