Útilokar ekki frekari hernaðarinngrip

David Cameron fór yfir niðurstöður Chilcot-skýrslunnar á þinginu.
David Cameron fór yfir niðurstöður Chilcot-skýrslunnar á þinginu. AFP

Breska þingið mun verja tveimur dögum í næstu viku í að ræða Chilcot-skýrsluna. Nú stendur yfir spurningatími á þinginu, en í hádeginu sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, að Chilcot-nefndin hefði ekki komist að þeirri niðurstöðu að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði vísvitandi beitt blekkingum.

Að sögn Cameron var það niðurstaða nefndarinnar að stjónvöld í Washington og Lundúnum hefðu einlæglega trúað því að Saddam Hussein ætti bæði efna- og lífefnavopn, og freistaði þess að koma höndum yfir kjarnorkuvopn.

Hins vegar hefðu menn ekki íhugað vandlega þann möguleika að þeir hefðu rangt fyrir sér. Cameron sagði að Chilcot hefði komist að þeirri niðurstöðu að Robin Cook, þingmaður Verkamannaflokksins sem var mjög andsnúinn innrásinni, hefði sýnt fram á að draga mætti aðrar ályktanir af þeim gögnum sem lágu fyrir.

Forsætisráðherrann benti einnig á að í skýrslunni kæmi fram að Blair hefði sent George W. Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, erindi sem ekki voru borin undir aðra breska ráðamenn. Blair hefði hins vegar ekki blekkt fólk vísvitandi.

Þá sagði Cameron að það hefði verið niðurstaða Chilcot-nefndarinnar að breskir hermenn hefðu ekki fengið nauðsynlegan búnað og að í stað þess að endurmeta stöðuna hefðu menn einblínt um of á að draga heraflann frá landinu.

Cameron sagði að þeir þingmenn sem hefðu verið fylgjandi innrás þyrftu að axla sína ábyrgð. Draga þyrfti lærdóm af skýrslunni, m.a. þann að stríð ætti að vera síðasti kosturinn í stöðunni. Þá þyrfti umræða að fara fram innan viðkomandi stofnana í stjórnsýslunni áður en ráðist væri í hernaðaraðgerðir.

Hann sagði einnig að „kúltúrinn“ skipti máli; embættismenn þyrftu að geta spurt ráðherra gagnrýninna spurninga óttalaust.

Forsætisráðherrann sagði skýrsluna ekki útiloka frekari hernaðarinngrip og að það væru nokkrar lexíur sem menn ættu ekki að draga af skýrslunni. Í fyrsta lagi væri rangt að álykta að Bretland ætti ekki að styðja við Bandaríkin. Í öðru lagi mætti ekki byggja ákvarðanir á mati leyniþjónusta. Skýrslan sýndi fram á að aðskilja þyrfti mat á gögnum og pólitíska stefnumótun. Þá væri rangt að álykta að hernaðarinngrip gætu ekki skilað árangri og ekki síður að þau væru í öllum tilfellum röng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert