Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá nafni mannsins sem grunaður er um að hafa skotið á lögreglumenn í Dallas í gærkvöldi með þeim afleiðingum að fimm létust og sjö særðust. Hann er sagður 25 ára gamall, ekki á sakaskrá og svo virðist sem hann tengist ekki öfgahópum.
Lögreglumenn drápu Micah Johnson sem er sagður íbúi í Mesquite, úthverfi Dallas-borgar, í umsátursástandi sem skapaðist eftir skothríðina.
ABC-sjónvarpsstöðin segir að Johnson hafi verið í varaliði Bandaríkjahers þangað til í apríl í fyrra. Heimildir hennar hermi að hann hafi verið smiður og múrari.
Áður hafði lögreglan í Dallas gefið út að maðurinn hafi sagt að hann tengdist engum hópum og að hann hafi verið einn að verki. Hann hafi sagt lögreglu að hann væri reiður vegna nýlegra dæma um að lögreglumenn hafi skotið blökkumenn og að hann vildi drepa hvítt fólk, sérstaklega lögregluþjóna.