Gekk um með riffil og gaf sig fram

Mark Hughes á gangi með riffilinn á meðan á mótmælunum …
Mark Hughes á gangi með riffilinn á meðan á mótmælunum stóð. Ljósmynd/Twitter

Maður að nafni Mark Hughes gaf sig fram við lögregluna í Dallas eftir að hún hafði lýst eftir honum vegna skotárásanna á lögregluþjóna. Fram að því hafði hann um skamma hríð verið einn eftirlýstasti maður Bandaríkjanna. 

Lögreglan birti ljósmynd af honum á Twitter með árásarriffil um öxlina í bol sem var í felulitum á meðan á mótmælum vegna lögregluofbeldis stóð í borginni og óskaði eftir aðstoð við að finna hann.

Löglegt er að bera skotvopn fyrir allra augum í Texas, fyrir þá sem eru með tilskilin leyfi til þess.

Frétt mbl.is: Fimm lögreglumenn myrtir í Dallas

Skilaboðunum frá lögreglunni í Dallas var endurtíst um 40 þúsund sinnum á Twitter og var hann skyndilega orðinn einn eftirlýstasti maður Bandaríkjanna.

Ein fréttastofa tók viðtal við bróður hans Corey, sem staðhæfði að hann væri saklaus. Hann hefði einungis verið að taka þátt í friðsamlegum mótmælum. Sagðist hann hafa áhyggjur af því að bróðir sinn yrði skotinn til bana ef lögreglan kæmi auga á hann.

Hughes fékk að lokum skilaboð um að hann væri eftirlýstur og gaf sig fram. Eftir að hafa verið yfirheyrður af lögreglunni var honum sleppt lausum eftir að í ljós kom að hann tengdist árásunum ekki neitt.

Síðar fór Hughes í sjónvarpsviðtal ásamt bróður sínum þar sem hann sagðist hafa fengið líflátshótanir vegna ljósmyndarinnar af honum sem hafði verið dreift um allt netið.

Hann sakaði lögregluna um að hafa logið því að vitni hefði séð hann taka þátt í árásunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert