„Það er gríðarlega mikil sorg,“ segir hin íslenska Guðbjörg Peggy Morgan Wallace í samtali við mbl.is. Guðbjörg hefur verið búsett í Dallas í Texasríki frá því hún var barn en þar voru fimm lögreglumenn skotnir til bana í gærkvöld og fleiri særðust.
Frétt mbl.is: Fimm lögreglumenn myrtir í Dallas
„Það eru vandamál í landinu okkar og mikil sorg,“ segir Guðbjörg en hún var stödd á heimili sínu í Garland í úthverfi Dallas þegar atburðirnir áttu sér stað.
Kourtney Kimberlin Summers, frænka Guðbjargar, var stödd á vettvangi þar sem hún tók þátt í mótmælunum. „Þarna voru saklausir lögreglumenn á friðsælum mótmælum, segir frænka mín mér,“ útskýrir Guðbjörg, en hún hafði verið ásamt vinum sínum að mótmæla morðum tveggja þeldökkra manna sem féllu fyrir hönd lögreglu í vikunni.
Frétt mbl.is: Skotinn af lögreglu á rauðu ljósi
Frétt mbl.is: „Við fæðumst með skotmark á bakinu“
„Þegar skotárásin hófst er það þeirra [lögreglumannanna] áhyggjuefni að vernda mótmælendurna, það hvarflaði ekki að þeim að þeir sjálfir væru skotmarkið,“ hefur Guðbjörg eftir frænku sinni.
Kourtney þurfti að gista hjá vinum í nótt þar sem hún komst ekki heim því bíllinn hennar lokaðist inni á vettvangi glæpsins. Fjölskyldumeðlimir sóttu hana í morgun en óljóst er hvenær hún getur sótt bílinn þar sem svæðið er ennþá afgirt vegna rannsóknar málsins.
Þá þekkir Guðbjörg einnig til nokkurra lögreglumanna í Dallas og segir hún það hafa verið mikinn létti að heyra að engum þeirra hafi orðið meint af.
Frétt mbl.is: Gekk um með riffil og gaf sig fram
Frétt mbl.is: Viðbrögð lögreglu „algjör svívirðing“