Nasisti má vera kanadískur

Kanadískt vegabréf. Fyrrum nasisti verður ekki sviptur kanadískum ríkisborgararétti.
Kanadískt vegabréf. Fyrrum nasisti verður ekki sviptur kanadískum ríkisborgararétti. Skjáskot cic.gc.ca

Kanadískur fyrrverandi meðlimur dauðasveita nasista hefur unnið dómsmál sem heimilar honum að dvelja áfram í Kanada, en kanadíska ríkið hefur reynt að afturkalla ríkisborgararétt hans í tvo áratugi. Ríkið áfrýjaði dómnum en hæstiréttur Kanada hefur neitað að taka málið fyrir.

Helmut Oberlander flutti til Kanada frá Þýskalandi 1954 og fékk kanadískan ríkiborgararétt sex árum síðar. Kanada bannar þeim sem komið hafa að stríðsglæpum að öðlast ríkisborgararétt, en Oberlander greindi kanadískum stjórnvöldum ekki frá fortíð sinni við komuna til landsins.

Kanadíska ríkið hefur þrisvar svipt Oberlander ríkisborgararétti síðan 1995, en hann hefur alltaf áfrýjað og haldið réttinum.

Sjálfur segir Oberlander að hann hafi starfað nauðugur með nasistum sem þýðandi og hafi aldrei tekið þátt í grimmdarverkum þeirra. Lögmaður hans segist ánægður með niðurstöðuna, en réttarhöldin hafi tekið á skjólstæðing sinn og fjölskyldu hans.

Þá sé óréttlátt að svipta hann ríkisborgararétti eftir 50 ára veru í landinu, auk þess sem hann hafi hvorki framið stríðsglæpi né tekið þátt í slíkum. The Guardian greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert