„Það er engin réttlæting möguleg fyrir árásum sem þessum eða nokkurri atlögu gegn lögreglu. Hver sem tekur þátt í þeim verður dreginn til ábyrgðar,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi eftir að fimm lögreglumenn voru myrtir í Dallas. Morðin væru grimmdarleg, fyrirlitleg og úthugsuð.
Obama hélt blaðamannafund í Varsjá í Póllandi en hann kom þangað í morgun til að vera viðstaddur leiðtogafund Atlantshafsbandalagsríkja. Hvatti hann Bandaríkjamenn til að tjá lögreglumönnum innilegt þakklæti sitt og að minnast fórnarlamba árásanna í nótt sérstaklega. Dagurinn í dag sé raunarleg áminning um þær fórnir sem þeir færa fyrir landsmenn.
Staðfest er að fimm lögreglumenn eru látnir eftir að leyniskyttur hófu skothríð á lögreglu á meðan á mótmælum gegn lögregluofbeldi stóð í gærkvöldi að staðartíma í Dallas. Sex aðrir lögreglumenn eru sagðir særðir.
„Í dag einbeitum við okkur að fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra. Þær eru harmi slegnar. Öll Dallas-borg syrgir,“ sagði Obama.
Áður hafði forsetinn rætt tvö dráp lögreglumanna á blökkumönnum í vikunni sem hafa vakið mikla reiði. Obama sagði þær sýna mismunun á milli kynþátta í Bandaríkjunum. Vísaði hann til tölfræði sem sýndi að þeir sem tilheyrðu minnihlutahópum væru líklegri til að vera stöðvaðir af lögreglu, til að leitað væri á þeim eða þeir skotnir af lögreglu.
„Ef samfélagið vantreystir lögreglunni þá gerir það líf lögreglumanna sem standa sig vel, sem eru að gera það rétta, erfiðara,“ sagði Obama.
Það að benda á misbresti í vinnubrögðum lögreglunnar jafngilti því ekki að vera andsnúinn lögreglumönnum.
„Þegar fólk segir „líf svartra skiptir máli“ þýðir það ekki að líf [lögreglumanna] skipti ekki máli,“ sagði forsetinn. Tölfræðin sýndi að blökkumönnum væri hættara við að lenda í árekstrum sem þessum við lögregluna. Það væri sérstök byrði sem lögð væri á herðar þess þjóðfélagshóps.