Sprengdur í loft upp með vélmenni

Frá vettvangi. Byssumaðurinn banaði fimm lögregluþjónum í nótt í Dallas …
Frá vettvangi. Byssumaðurinn banaði fimm lögregluþjónum í nótt í Dallas í Texas. AFP

Leyniskyttan sem myrti fimm lögregluþjóna í Dallas í nótt virðist hafa verið ein að verki. Þetta sagði Jeh Johnson, þjóðaröryggisráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í New York fyrir skemmstu. 

„Á þessari stundu virðist sem byssumaðurinn hafi verið einn að verki og ekki er vitað til þess að hann hafi verið tengdur eða fengið innblástur frá alþjóðlegum hryðjuverkahópum,“ sagði Johnson.

AFP

Lögreglan í Dallas staðfesti í kvöld að byssumaðurinn hafi verið hinn 25 ára Micah Johnson, fyrrverandi hermaður frá Texas. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður.

Við húsleit á heimili byssumannsins fann lögregla sprengjugerðarbúnað, skothelt vesti, riffla og byssukúlur.

Skammt frá Dealey Plaza þar sem John F. Kennedy var myrtur

Skotárásin í nótt er sú mannskæðasta hjá lögreglunni síðan hryðjuverkaárásin var framin á Tvíburaturnana 11. september árið 2001. Byssumaðurinn hóf skothríðina þegar mótmælagangan, þar sem lögregluofbeldi var mótmælt, var tekin að leysast upp.

Árásin átti sér stað skammt frá Dealey Plaza í Dallas, þar sem John F. Kennedy, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var myrtur árið 1963. Dallas er ein stærsta borgin í Texas og telja íbúar borgarinnar um 1,2 milljónir manna.

Fánum var flaggað í hálfa stöng fyrir utan ráðhús Dallasborgar …
Fánum var flaggað í hálfa stöng fyrir utan ráðhús Dallasborgar vegna skotárásarinnar. AFP

Í borginni komu saman hundruð mótmælenda til að mótmæla morðum á tveimur svörtum mönnum í Louisiana og Minnesota í vikunni en mótmælagöngur voru haldnar víða um Bandaríkin vegna atburða vikunnar.

Vildi hvíta lögregluþjóna feiga

Upphaflega taldi lögregla að fleiri en ein leyniskytta væri að verki og var lögregla óljós í svörum sínum til fjölmiðla í dag. Það var því ekki fyrr en tilkynningin kom frá þjóðaröryggisráðuneytinu að það fékkst staðfest að byssumaðurinn hafi verið einn að verki.

Eftir að lögregla hafði rætt við árásarmanninn í nokkrar klukkustundir kom til átaka milli hans og lögreglu sem lauk með því að lögregla sendi inn sprengjuvélmenni og lést árásarmaðurinn af völdum sprengjunnar.

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. AFP

„Hann hótaði sprengjum svo við töldum að þetta væri öruggasta leiðin inn, sem reyndist vera rétt,“ sagði Mike Rawlings, borgarstjóri Dallas, um notkun vélmennisins.

Lögreglustjóri Dallas-borgar sagði að í viðræðum við árásarmanninn hafi hann sagt við lögreglu að hann vildi hvíta feiga, sérstaklega hvíta lögregluþjóna, en hann var reiður vegna lögregluofbeldis gegn svörtu fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert